Skotsamband Íslands var stofnað 16. febrúar 1979. Myndin er frá stofnun sambandsins.
Efri röð frá vinstri: Sigurður Magnússon, nr 2 ekki vitað, Hermann Guðmundsson, Steinar Einarsson, Sveinn Björnsson, Magnús Sigurðsson, Vilhjálmur Sigurjónsson, nöfn fjögurra næstu vantar. Neðri röð frá vinstri: Ferdinand Hansen, Þórhallur Hróðmarsson, Gísli Halldórsson, Jóhannes Christensen, Björn Eiríksson og Guðmundur Guðmundsson. Á myndina vantar fyrsta formann Skotsambandsins, Axel Sölvason.
Hér að neðan er dagskrá frá stofnun Skotsambands Íslands og fyrstu lög sambandsins.
Dagskrá Stofnþing Skotsambands Íslands Föstudaginn 16. febrúar 1979.
1. Stofnþingið sett af Gísla Halldórssyni forseta ÍSÍ.
2. Kjörbréf og aðild að stofnun sérsambandsins (athugun).
3. Lagt fram til afgreiðslu frumvarp að lögum fyrir Skotsamband Íslands.
4. Hlé.
5. Kosið í stjórn og aðrar trúnaðarstöður Skotsambands Íslands.
6. Önnur mál.
STOFNÞING SKOTSAMBANDS ÍSLANDS 16. FEBRÚAR 1979.
Þessi héraðssambönd hafa tilkynnt aðild sína að Skotsambandi Íslands.
Íþróttabandalag Reykjavíkur: Fulltrúar: Axel Sölvason Björn Eiríksson Ólafur Ófeigsson Steinar Einarsson Vilhjálmur Sigurjónsson Varafulltrúi: Magnús Sigurðsson
Héraðssambandið Skarphéðinn: Fulltrúar: Axel Wolfram Gunnar Kristófersson Þórhallur Hróðmarsson
Íþróttabandalag Hafnarfjarðar: Fulltrúar: Guðmundur Guðmundsson Jóhannes Christensen Ferdinand Hansen
Íþróttabandalag Vestmannaeyja: Fulltrúar: Loftur Harðarson Friðrik Harðarson
Íþróttabandalag Akureyrar: Fulltrúar: Sigurður Aðalsteinsson Torfi Gunnlaugsson
Íþróttabandalag Ísfirðinga: Sendir ekki fulltrúa.
HÉRAÐSSAMBÖND, FÉLÖG OG IÐKENDUR.
Skotfimi samkvæmt kennsluskýrslum 1977.
U.M.S.S. Ungmennafélagið Fram 14 U.M.S.S. Ungmannafélagið Glóðafeykir 4
H.S.H. Miklaholtshrepps 2
U.S.V.H. Ungmannafélagið Grettir 12 U.S.V.H. Ungmannafélagið Víðir 8
Í.B.A. Íþróttafélag fatlaðra 4
Í.B.H. Skotfélag Hafnarfjarðar 24
H.S.K. Skotfélag Hveragerðis 20 H.S.K. Ungmennafélagið Vaka 5
Í.B.R. Skotfélag Reykjavíkur 363
Iðkenda fjöldi samtals: 465
ATH: Vitað er um tvö skotfélög, sem starfandi eru, en koma eigi fram í yfirliti þessu, þar sem skýrslur fyrir 1977 bárust ekki. Annað skotfélagið er á Akureyri, hitt er í Vestmannaeyjum þannig að fullvíst er að mun fleiri iðka skotfimi, en seinustu kennsluskýrslur greina frá.
FRUMVARP AÐ LÖGUM FYRIR SKOTSAMBAND ÍSLANDS
1. grein. Skotsamband Íslands ( S.T.Í ) er æðsti aðili um öll mál skotíþróttarinnar inna vébanda Íþróttasambands Íslands ( Í.S.Í. )
2. grein. Skotsamband Íslands er samband skotráða svo og héraðssambanda og eru öll þau félög innan Í.S.Í., er iðka, æfa og keppa í skotíþrótt, aðilar að S.T.Í.
3. grein. Starf STÍ er í meginatriðum: a. Að hafa yfirstjórn allra Íslenskra skotíþrótta. b. Að vinna að eflingu skotíþróttar og koma fram erlendis fyrir hönd skotíþróttarinnar. Með hæfilegum fyirvara skal STÍ tilkynna framkvæmdarstjórn ÍSÍ áætlanir sínar og ákvarðanir um samskipti við útlönd.
4. grein. Málefnum STÍ stjórna: a. Skotþingið. b. Stjórn STÍ
5. grein. Skotþingið fer með æðsta vald í málefnum STÍ. Þingið sitja fulltrúar frá þeim aðilum sem mynda STÍ. Fulltrúafjöldi hvers aðila fer eftir tölu virkra skotiðkenda, þannig að fyrir allt að 25 menn koma 2 fulltrúar og síðan 1 fyrir hverja 25 eða brot úr 25, upp í allt að 100 iðkendur, og þá 1 fulltrúi að auki fyrir hverja 50 iðkendur það fram yfir. Þingið skal halda í október ár hvert. Skal þingið boðað bréflega með minnst eins mánaðar fyrirvara. Málefni, sem sambandsaðilar óska að tekin verði fyrir á þinginu, skulu tilkynnt stjórn STÍ bréflega minnst tveimur vikum fyrir þingið. Þá skal stjórn STÍ tilkynna sambandsaðilum dagskrá þingsins ásamt tillögum og lagabreytingum, sem borist hafa, í síðasta lagi 7 dögum fyrir þing. Skotþingið er lögmætt, ef löglega hefur verið til þess boðað.
6. grein. Á skotþinginu hafa fulltrúar einir atkvæðisrétt, en auk þeirra eiga rétt á þingsetu og hafa þar málfrelsi og tillögurétt: a. Stjórn STÍ varastjórn og endurskoðendur. b. Framkvæmdarstjórn ÍSÍ. c. Fastráðnir starfsmenn STÍ og ÍSÍ. d. Allir nefndarmenn STÍ. e. Skotdómstóll. f. Formaður Ólimpíunefndar Íslands.
Auk þess getur stjórn STÍ boðið öðrum aðilum þingsetu, ef hún telur ástæðu til.
Aðeins sá sem er í félagi, sem iðkar skotíþróttir innan sérráðs eða héraðssambands, er kjörgengur fulltrúi þess á skotþingið. Hver fulltrúi hefur 1 atkvæði, þó má heimila að fulltrúi fari með fleiri en 1 atkvæði, en aðeins með atkvæði þess aðila sérráðs eða héraðssambands, sem hann er fulltrúi fyrir.
7. grein. Aukaþing má halda, ef nauðsyn krefur eða helmingur sambandsaðila óskar þess. Alla boðunar- og tilkynningarfresti til aukaþings má hafa helmingi stytri en til reglulegs þings. Fulltrúar á aukaþingi eru þeir sömu og voru á næsta reglulega þingi á undan, og gilda sömu kjörbréf. Þó má kjósa að nýju í stað fulltrúa, sem er látinn, veikur eða fluttur úr héraðinu eða forfallaður á annan hátt. Á aukaþingi má ekki gera laga- og leikreglnabreytingar og ekki kjósa stjórn nema bráðabirgðastjórn, ef meirihluti kjörinnar aðalstjórnar hefur sagt af sér eð hætt störfum af öðrum orsökum. Að öðru leiti gilda um það sömu reglur og um reglulegt skotþing.
8. grein. Störf skotþings eru: 1. Þingsetning 2. Kosning þriggja manna kjörbréfanefndar. 3. Kosning Þingforseta og þingritara.
4. Kosnar fastar nefndir: a. Fjárhagsnefnd b. Laga- og leikreglnanefnd c. Allsherjarnefnd Nefndir þessar eru skipaðar 3 mönnum hver.
5. Fráfarandi stjórn gefur skýrslu sína. 6. Gjaldkeri leggur fram endurskoðaða reikninga sambandsins til samþykktar. 7. Stjórnin leggur fram fjárhagsáætlun fyrir næsta ár. 8. Lagðar fram laga- og leikreglnabreytingar þær, sem fram hafa komið. 9. Teknar til umræðu aðrar tillögur og önnur mál, sem borist hafa til stjórarinnar. 10. Önnur mál. 11. Þinghlé. 12. Nefndarálit og tillögur og atkvæðagreiðsla um þær. 13. Ákveðið gjald ævifélaga. 14. Kostning stjórnar, varastjórnar, endurskoðenda og fulltrúa á íþróttaþing. 15. Kostnir 3 menn í dómstól skotsambandsins og þrír til vara. 16. Þingfundargerðir lestnar og staðfestar. 17. Þingslit.
Fái fleiri en þeir sem kjósa á jafnmörg atkvæði, skal kjósa um þá á ný bundinni kosningu. Verði þeir enn jafnir, ræður hlutkesti. Einfaldur meirihluti ræður úrslitum, nema um lagabreytingar sé að ræða, þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Þingið getur með 2/3 atkvæða viðstaddra fulltrúa leyft að taka fyrir mál, sem komið er fram eftir að dagskrá þingsins var send sambandsaðilum. ( skv. 5. gr. þriðju málsgr. ) Ársskýrslu STÍ, sem stjórnin skal leggja fjölritaða fyrir þingið, svo og ágrip af fundargerðum þingsins, skal senda framkvæmdarstjórn ÍSÍ og sambandsaðilum STÍ innan tveggja mánaða frá þingslitum.
9. grein. Stjórn STÍ skipa 3 menn, formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur. Skal kjósa bundinni leynilegri kosningu, formann fyrst síðan meðstjórnendur, sem skipta með sér störfum. Kjósa skal einnig 3 menn í varastjórn, og taka þeir sæti ef aðalmaður forfallast og koma inn í sömu röð og þeir voru kosnir. Stjórninni er heimilt að ráða launað starfsfólk. Aðsetur stjórnarinnar er í Reykjavík. Reikningsár STÍ er miðað við 1. október.
10. grein. Starfssvið stjórnar STÍ er: a. Að framkvæma ályktanir skotþingsins. b. Að vinna að eflingu skotíþróttarinnar. c. Að semja leikreglur og reglugerðir fyrir skotíþróttina. d. Að senda sambandsstjórn og framkvæmdarstjórn ÍSÍ lögboðnar skýrslur og tilkynningar. e. Að líta eftir því að lög og leikreglur STÍ séu haldin. f. Að setja nauðsynleg bráðabirgðaákvæði. g. Að raða niður og ákveða stað og tíma fyrir landsmót. Það skal STÍ að jafnaði að gera fyrir hver áramót og þá í samráði við stjórnir sérráða ( héraðstjórnir ) og framkvæmdastjórn ÍSÍ. h. Að úthluta þeim styrkjum til skotíþrótta, sem STÍ fær til umráða. i. Að koma fram erlendis fyrir hönd skotíþróttarinnar.
11. grein. Formaður STÍ boðar stjórnarfund og stjórnar þeim.
12. grein. Skotsérráðin ( héraðssamböndin ) eru milliliður milli félaga sinna og stjórnar STÍ. Þau skulu og senda henni allar skýrslur um mót, sem haldin eru innan umdæmisins. Þessar skýrslur skulu sendar inna mánaðar eftir að mótinu lýkur. Ársskýrslur sínar um störf sérráðsins ( héraðsambandsins ) og tölu virkra skotiðkenda í umdæminu, skulu þau senda stjórn STÍ fyrir 1. ágúst ár hvert. Á þeim byggist fulltrúaréttur og fulltrúafjöldi þeirra á skotþinginu, sbr. 6. gr.
13. grein. STÍ skal, í samráði við hlutaðeigandi héraðsambönd, vinna að stofnun nýrra sérráða.
14. grein. Stjórn STÍ hefur frjálsan aðgang að öllum skotmótum og sýningum sem fram fara innan vébanda STÍ. Einnig á hún rétt á að sitja aðalfundi sérráða, dómarafélaga og héraðssambanda, sem eru aðilar að sambandinu.
15. grein. Ævifélagar STÍ geta þeir orðið, sem stjórn STÍ samþykkir. Heiðursfélaga STÍ má stjórn þess kjósa, ef hún er einhuga um það.
16. grein. Tillögur um að leggja STÍ niður má aðeins taka fyrir á lögmætu skotþingi. Til þess að samþykkja þá tillögu, þarf minnst 3/4 hluta atkvæða. Hafi slík tillaga verið samþykkt, skal gera öllum sambandsaðilum grein fyrir henni í þingskýrslunni og tillagan síðan látin ganga til næsta reglulega þings. Verði tillagan þá samþykkt aftur, er það fullgild ákvörðun um að leggja STÍ niður. Skal þá afhenda ÍSÍ eignir STÍ til varðveislu.
17. grein. Lög þessi öðlast gildi, þegar sambandsstjórn ÍSÍ hefur staðfest þau.
|