Um Silhouette skotíþróttina Skoða sem PDF skjal
Skrifað af: Kjartan Friðriksson   

Upphaf Silhouette

Silhouette-skotíþróttin er eftirlíking af skotkeppni sem stunduð var í Mexíkó fyrir aldamótin 1900. Í þá tíð skutu menn á lifandi dýr sem tjóðruð voru niður á mismunandi færum. Skyttan fékk í verðlaun þau dýr sem hann hitti, hvort sem þau voru lifandi eða dauð, svo framarlega að það blæddi úr þeim til sönnunar um að dýrið hafði verið hitt. Færin voru allt að 500 metrar og voru dýrin staðsett á hæð eða hól til að útlínur ( silhouette ) þess sæust. Algengt var að skotmenn, sem oftast voru fátækir bændur og veiðimenn, kepptust við að reyna að særa dýrin í stað þess að drepa þau,  til að fá þau lifandi með sér heim og auka þannig við bústofn sinn.

Silhouett - íþróttin

Að sjálfsögðu var þessi skotkeppni bönnuð þegar fram liðu stundir og henni síðar breytt í íþrótt þar sem menn skjóta á stálmyndir af dýrunum ( Silhouette ) í stað lifandi dýra. Silhouette er skotíþrótt þar sem skotið er á dýramyndir sem eru í fullri stærð og á samskonar færum og þær voru í gamla - daga, til að líkja sem mest eftir hinni fornu "íþrótt" þó svo að dýrategundirnar sem notaðar eru nú til dags hafi eitthvað breyst með tímanum.  Silhouetturnar eru staðsettar á 200m ( kjúklingur ), 300m ( svín ), 385m ( kalkún ), og 500m ( hrútur ).

Skotfæri og rifflar

Til að skjóta Silhouettur á þessum löngu færum eru notaðir rifflar s.s. cal.308win. og samskonar hylki með kúluþyngd frá 140grain til 168grain.  Stærri hylki eru ekki notuð vegna aukins bakslags sem skotmenn leitast við að draga úr vegna þeirra fjölda skota sem skotið er á æfingum og í keppnum. 308 win. var algengasta caliberið sem notað var til ársins 1990. Í seinni tíð hafa menn farið að nota hylki með minna bakslagi, s.s. 7MM-08 og  7BR sem nýtur mikilla vinsælda um þessar mundir.  6.5MM hylkin hafa einnig verið notuð með góðum árangri síðustu ár.  Minni caliber s.s. cal. 243 og önnur 6mm hylki eru ekki notuð þar sem þau hafa ekki nægilega þunga kúlu og slagkraft til að fella Silhouettuna á 500 metra færinu. Það sem gildir í þessari grein eins og öðrum greinum skotíþrótta er að hitta skotmarkið og skiptir þá máli þegar menn eru búnir að skjóta tugum skota að bakslagið sé viðráðanlegt fyrir skyttuna.

Silhouette-reglur

Reglurnar sem skotið er eftir byggjast helst á skottíma, sem er 2.5 mín. á hver fimm skot auk 15sek. til að hlaða riffilinn og þyngd riffils, sem má mest vega 4.6 kg með öllu. Þá eru reglur um lögun riffils sem flestir rifflar falla undir nema sérútbúnir markrifflar og loks eru reglur um það hvernig skotið er á dýrin eða í hvaða röð. Skotið er fimm skotum frá vinstri til hægri á einu færi í einu, fyrsta skoti á fyrstu Silhouettu öðru skoti á þá næstu, hvort sem viðkomandi hittir í fyrra skoti eða ekki, þangað til öllum fimm skotunum hefur verið skotið, þannig að aldrei er skotið nema einu skoti á hverja Silhouettu. Til að skora stig í Silhouette þarf einungis að fella Silhouettuna af stalli sínum. Silhouette er skotið úr standandi stöðu, án stuðnings frá aukahlutum hverskonar, s.s ólum, stillanlegum skeptum, axlarkrókum, sérstökum skotjökkum, skothönskum o.s.f.v. sem veitir auka stuðning við skyttuna. Í þessari skotíþrótt verður skotmaðurinn að glíma óstuddur við sína eigin hreyfingu, mismunandi færi, vind og ytri aðstæður.
Rétt er að geta þess að magnum-rifflar eru bannaðir í Silhouett vegna skemda sem þeir valda á skotmörkunum.

Fyrir konur og karla á öllum aldri

Að æfa og keppa í Silhouette-skotíþróttinni er bæði krefjandi og góð aðferð til að ná árangri í skotfimi. Silhouette er skotíþrótt fyrir konur jafnt sem karla og geta aðilar skipst á um að skjóta með sama rifflinum þegar tveir eða fleiri koma saman á æfingu. Silhouette-skotíþróttin nýtur mikilla vinsælda víða erlendis. Þetta er skotgrein sem hinn almenni áhugamaður um skotfimi getur stundað með sínum venjulega riffli, án þess að þurfa sérbúinn markriffil og einhvern auka útbúnað. Nær undatekningarlaust eru notaðir rifflar með þungum hlaupum ( Varmint Heavy Barrel ) og sjónaukar með stækkun frá tólf til allt að tuttugu sinnum og jafnvel meira. Flestir sem stunda þessa skotíþrótt koma sér upp með tímanum Silhouette-rifflum, sem eru með sérhönnuðu skepti til að skjóta með úr standandi stöðu ásamt léttum gikk og þungu hlaupi.

Silhouette - fyrir cal. 22LR

.22 Silhouette er skotið á fjórum færum, kjúklingar á 40 m, svín á 60 m, kalkúnar á 77 m og hrútar á 100 m.  Reglururnar sem skotið er eftir eru þær sömu og fyrir stóru rifflana, þyngd riffla o.s.f.v. Undantekning er að skotið er í tveimur flokkum, þ.e. veiðirifflaflokki ( léttir 22 veiðirifflar ) og markriffla flokki ( Silhouette rifflar með þungu hlaupi ). Einungis eru leyfðir cal. 22LR rifflar í Silhouette, en cal. 22 Magnum rifflar eru bannaðir. 

Nokkur atriði fyrir byrjendur

Þegar skotið er með cal .22LR riffli með kíki án markturna á Silhouettur má sjá á myndunum hér að neðan hvernig þarf að miða  þegar verið er að skjóta á silhouettur.  Hér er tekið dæmi um venjulegt cal .22LR skot, td. frá Lapua eða Eley, sem notuð eru til markskotfimi. Vegna hins bogadregna ferils kúlunnar ( fall kúlunar ) er eingöngu hægt að stilla kíkirinn á eitt færi, þ.e.a.s. það er einungis hægt að miða beint á skotmarkið á einu færi, í þessu tilfelli á kalkúna á 77m. Ákoman (þar sem kúlurnar lenda) er í miðjum kalkúnanum, eða nákvæmlega þar sem miðað er. Þar sem hér er tekið dæmi um kíki sem ekki er útbúinn með markturnum, sem hægt er að stilla með inn á hvert færi fyrir sig, þarf að stilla kíkinn / riffilinn inn á eitt ákveðið færi og miða síðan yfir eða undir eftir atvikum eins og sýnt er á myndunum. Rétt er að benda byrjendum á að nota ekki Hi-Power eða High Velocity .22LR skot þar sem þau eru ónákvæmari en skot sem ætluð eru til markskotfimi og oftast hlaðin léttari kúlu sem ber lengra af leið í vindi á 100 metrum en áðurnefnd markskot. Rétt er fyrir byrjendur að velja kíkir sem stækkar ekki mikið eða kíki með breytanlegri stækkun. Stækkun í kíki yfir tíu sinnum getur valdið erfiðleikum í standandi stöðu, en þetta þjálfast með tímanum.

Nokkur atriði um miðun og ákomu mismunandi færa

Sjá myndir: Þar sem kíkirinn er stilltur á 77m (kalkúni) er ákoman 5.5cm yfir á fyrsta færinu 40m (kjúklingur). Á næsta færi 60m (svín) er hún 4.0cm yfir, á þriðja færinu 77m (kalkúni) er ákoman eins og áður segir 0.0cm eða þar sem miðað er. Á síðasta færinu 100m (hrútur) er kúlan á hraðri niðurleið eða 11.5cm fyrir neðan. Athugið að þessar tölur eru einungis til viðmiðunar og verður hver og einn að prófa ákomuna úr eigin riffli, þar sem ákoman með sömu skotfærum getur verið mismunandi milli riffla. Þetta er gert með því að stilla upp skotskífum á viðkomandi færi til að prófa nákvæmni mismunandi skotfæra og að sjálfsögðu að sjá nákvæmlega hvar ákoman er á mismunandi færum.


Kjúklingur á 40m færi, ákoma er 5.5cm yfir


Svín á 60m færi, ákoma er 4.0cm yfir


Kalkúni á 77m færi, ákoma er 0.0cm.


Hrútur á 100m færi, ákoma er 11.5cm undir.

Athugið að myndirnar eru ekki í réttri stærð, en sýna u.þ.b. í réttum hlutföllum hvar þarf að miða með kíkinum til að hitta silhouetturnar þegar hann er stilltur á 77m. Ef hinsvegar er notaður kíkir með mark-turnum sem hægt er að stilla með á hvert færi fyrir sig þarf ekki að miða undir eða yfir eins og hér er sýnt. Þá er kíkirinn stilltur á það færi sem verið er að skjóta á hverju sinni og miðað eins og gert er þegar verið er að skjóta kalkúna, miðað beint á skotmarkið. kf

AddThis Social Bookmark Button