Hlaupmiðun auðveldar stillingu kíkja á rifflum.
Hlaupmiðun: Horft í gegnum hlaup (a) á skotskífu og kíkir (b) stilltur í miðju hennar.
Hlaupmiðun er fljótleg og einföld leið til að stilla kíkja á rifflum.
Við göngum ávallt úr skugga um að riffillin sé óhlaðinn áður en við skoðum eitthvað annað...
Fyrst og fremst:
Áður en hafist er handa við að stilla kíkinn á rifflinum, þarf að ganga úr skugga að kíkirinn sé rétt festur á riffilinn. Það er mjög áríðandi fyrir byrjendur að fá aðstoð þeirra sem til verka kunna í þeim efnum. Það eru ýmis atriði sem þurfa að vera rétt í ásetningu kíkis áður en farið er að skjóta úr rifflinum. Það er auðvelt að skemma kíki sem er ekki réttur í festingunum þegar hringirnir eru skrúfaðir fastir. Það getur verið að kíkirinn sé ekki lóðréttur, þ.e. krossin hallar, sem leiðir til þess að riffillinn setur til vinstri eða hægri á öðrum færum en þeim sem hann er núll-stilltur inn á.
Kíkirinn komin á:
Eftir að gengið hefur verið úr skugga um að kíkirinn sé rétt festur á riffilinn getur stilling hans hafist, en best er að byrja á að stilla fókus og parlax ef kíkirinn er með parlax stillingu.
Fókusinn stilltur:
Til að stilla fókusinn er hringurinn á afturenda hans notaður. Þetta er venjulega samskonar stillihringur og á sjónaukum almennt. Kíkja með parlaxstillingu þarf að stilla á lengsta færi á parlaxstillingunni áður en fókusinn er stilltur og stilla kíkinn á mestu stækkun. Til að stilla fókusinn er einfalt að t.d. horfa í gegnum kíkinn upp í heiðan himininn og eða hvítan vegg heima. Ef litið er snöggt á krossinn í kíkinum - á hann að vera hárskarpur og svartur. Ef hann er það ekki þarf að stilla fókusinn samkvæmt sjón viðkomandi. Ath að ef horft er lengi á krossinn við þessar aðstæður byrjar augað að aðlaga sig, fókusera. Til að koma í veg fyrir að menn þreytist í auganu ef fókusinn er ekki réttur - þarf að nota aðferðina sem nefnd var hér á undan, þ.e. að líta eldsnöggt í kíkinn, krossinn á að vera í fókus og svartur um leið og litið er á hann - þá er komin rétt fókusstilling fyrir þann sem horfir í gegnum kíkinn.
Parlax stilling:
Kíkir með mikilli stækkun, 12x og meira eru oftast með parlax stillingu. Parlax í kíki lýsir sér þannig að ef riffillinn er td. fastur í skorðum á borði og horft er í gegnum hann á fastan hlut í vissri fjarlægð, td. á 100 metrum, og augað síðan fært örlítið til en samt ekki það mikið að sjónmyndin hverfi og án þessa að hreyfa riffilinn, þá á krossinn að vera hreyfingarlaus á sama punktinum. Ef hreyfing er á krossinum, hann færist til upp eða niður og til hliðar, miðað við skotmarkið sem krossinn miðar á, er parlax í kíkinum. Það sem gerist við þessar aðstæður er að brennipunktur myndarinnar er rétt fyrir framan eða aftan krossin í kíkinum. Til að stilla þessa hreyfingu út er sérstakur búnaður á kíkjum (parlaxstilling) með mikilli stækkun og oftast eru færin merkt inn á parlaxstillinguna. Ef færin eru ekki merkt er parlaxinn stilltur þannig að parlaxstillingin er færð þar til sjónmyndin er komin í fókus. Kíkjar ætlaðir til veiða eru sjaldnast með þessum búnaði, enda eru kíkjar með stækkun til allt að 10X nær parlaxfríir út á 300 metra færi eða parlax er það lítill að augað greinir það varla. Þessi parlax kemur ekki að sök í veiði, þar sem skekkjan er oftast ekki meiri en u.þ.b. 2-4 cm á 400 metra færi.
Stilling kíkisins:
Við stillingu kíkja og hlaupmiðun er best að byrja á að setja upp skotskífu á 25 - 100m færi eftir aðstæðum og koma rifflinum fyrir í skorðum (mynd að ofan) þannig að þegar horft er í gegnum hlaupið, sést skotskífan í því miðju (mynd A). Krossin í kíkinum er síðan færður á miðja skotskífuna með hliðar- og hæðarstillingunum (mynd B). Ef hinsvegar riffillinn er þannig smíðaður, að það er ekki hægt að sjá í gegnum hlaupið, er best að setja upp skotskífu á stuttufæri, skjóta einu skoti - og stilla út frá því í gegnum kíkinn.
Kíkir fínstilltur:
Þegar þessu er lokið þarf að fínstilla kíkinn. Það er gert með því að skjóta þremur skotum á skotskífuna til að sjá ákomuna, þ.e.a.s. hvar kúlurnar lenda. Þegar ákoman er eins og myndin neðst til vinstri sýnir, þarf að finna miðju hennar og mæla síðan fjarlægð milli miðju skotskífu og miðju ákomu eins og sýnt er á myndinni. Til að stilla kíkinn, svo að kúlurnar lendi í miðri skotskífu, þarf að færa hæðar- og hliðarfærslurnar í samræmi við fjarlægð frá miðju ákomu að miðju skotskífu.
Ákoman á skotskífuna:
Ef við gefum okkur að ákoman sé 7,5 cm fyrir neðan og 5,0 cm til hægri, þarf að færa hæðarstillingu u.þ.b. 12 klikk upp og hliðarstillingu u.þ.b. 8 klikk til vinstri, miðað við að hvert klikk/færsla á kíki sé ¼ úr tommu á 100 yards/metrum eða u.þ.b. 8-10 mm á 100m. Það sem raunverulega er að gerast við þessa stillingu er að krossinn í kíkinum er færður frá miðju skotskífu á miðju ákomunar, þar sem skotin lenda á skífunni.
Stutta leiðin til að stilla krossin á réttan stað - og sú einfalda - og sú sem virkar best í flestum tilvikum :
Þessa stillingu er hægt að framkvæma með riffilinn stöðugan í skorðum án þess að hann hreyfist. Skjóta einu skoti á blað, sjá hvar kúlugatið er. Stilla rifflinum upp aftur og miða á sama stað og þegar skotið var- og færa krossin í miðju kúlugatsins á blaðinu. Næst, þegar búið er að stilla krossin á kúlugatið, er að skjóta a.m.k. þremur skotum til að sannprófa stillinguna. Ef allt er rétt og kúlugötin koma þar sem miðja krossins er - er næst að skjóta riffilinn inn á það færi sem hver og einn velur í samræmi við það sem á að nota riffilinn í.
Á hvaða færi á að stilla kíkinn:
Það er misjafnt inn á hvaða færi menn stilla rifflana sína, en það fer oftast eftir skotastærð (kaliberi) og til hvaða nota riffillinn er ætlaður. Íþróttarifflar eru oftast með sérstökum mark-kíkjum sem hægt er að stilla inn á mörg mismunandi færi með sérstökum markturnum. Algengt er að meðalstórir veiðirifflar með hefðbundnum kíki, séu stilltir inn á 100m, 150m eða 200 metra færi. Miðað við að núllstilla inn á 200m er ákoman á 100 metrum u.þ.b. 1.5 tommur til 2.5 tommur (3.5-6 cm) yfir - og allt að tíu tommur undir á 300 metrum (25 cm). En hvernig riffilinn setur á 100m og 300m er mismunandi eftir kaliberi riffilsins og þetta þarf hver og einn að prófa með því að skjóta á skotskífur á þeim færum sem ætlað er að nota riffilinn á.
Myndir hér að neðan:
Myndin hér að neðan til vinstri sýnir hvernig miðja ákomu er merkt og síðan fjarlægð hennar mæld frá miðju skotskífu. Myndin til hægri sýnir stillihnapp á kíki. Takið eftir að eitt klikk er ¼ tomma (ca. 6 mm) á 100 yards (91 metri). Færsla um fjögur klikk er því u.þ.b. 2,5 cm á 100 metrum, u.þ.b. 5,0 cm á 200 metrum og u.þ.b. 7,5 cm á 300 metra færi.
ÂÂÂÂ
|