Um Skotfélagið Skoða sem PDF skjal
Skrifað af: Kjartan Friðriksson   

Skotfélag Reykjavíkur er elsta íþróttafélag Íslands. Félagið var stofnað 2. júní 1867 og starfssemi þess hófst við Skothúsveg í Reykjavík, sama ár.


 

Skotfélag Reykjavíkur hefur verið starfrækt síðan 1867.

Skotfélag Reykjavíkur á sér langa sögu í borginni, en það er elsta íþróttafélag landsins og var stofnað 2. júní árið 1867. Fyrstu skotæfingar félagsins fóru fram við tjörnina í Reykjavík en heimildir um skotæfingar við Tjörnina ná enn lengra aftur eða til ársins 1840. Það er því rík hefð fyrir skotfimi í Reykjavík.

Skothúsvegur við Tjörnina í Reykjavík dregur nafn sitt af Skothúsi Skotfélags Reykjavíkur, en skothúsið var reist af skotfélagsmönnum um það leyti sem félagið var stofnað. Húsið stóð u.þ.b. þar sem nú er Tjarnargata 35, og hét þá því formlega nafni "Reykjavigs Skydeforenings Pavillon". Skothúsið, eins og það var kallað í daglegu tali, var félagsheimili skotfélagsmanna, sem síðar var notað sem íbúðarhús og loks rifið um 1930. Skothúsvegur liggur milli Suðurgötu og Laufásvegar, í austur og vestur, þvert yfir Tjörnina og er að hluta á brú sem var smíðuð árið 1920.

Starfsemi Skotfélags Reykjavíkur á sér lengri forsögu en frá formlegri stofnum þess 1867.
Íslenskir og danskir menn stóðu að stofnun félagsins árið 1867. Fyrir stofnun félagsins voru stundaðar skotæfingar við Tjörnina í Reykjavík frá árinu 1840. Þá voru leyfðar skotæfingar á litlum tanga sem lá út í Tjörnina þar sem Skotfélagsmenn reistu síðar skotvörðu rétt austan við Skothúsið. Skotfélagsmönnum var gert að skjóta í suður í áttina að Skildingarnesi. Skotstefnan var samsíða Suðurgötu í átt að Skerjafirði.

Á árunum eftir stofnun félagsins mættu menn reglulega til æfinga í hverri viku og margar keppnir í skotfimi voru haldnar og verðlaun veitt fyrir góðan árangur. Á fyrstu árum félagsins var hefðarbragur á allri starfssemi, enda helstu fyrirmenn bæjarins meðlimir í Skotfélaginu. Þegar æfingar Skotfélagsins voru haldnar var gefin út viðvörun til bæjarbúa og þeir varaðir við að vera á ferli á melunum og í skotlínu skotmanna, vegna slysahættu af völdum skota. Þannig var háttur á hafður á skotsvæði Skotfélags Reykjvíkur við Skothúsveg að hlaðin var steinvarða við enda skotbrautarinnar og var skotmarki úr timbri stillt upp við hana. Guðmundur, sem var utangarðsmaður í Reykjavík á þessum tíma, hafði þann starfa að standa á bak við vörðuna þegar skotæfingar voru haldnar. þegar hlé var gert á skothríðinni fór Guðmundur fram fyrir vörðuna og benti með flaggi á hvar skotin höfðu hitt í skífuna og af þessu fékk hann viðurnefnið "Vísir". Þar sem timbur skotskífur entust illa var síðar tekin í notkun skotskífa úr stáli og sagði Guðmundur Vísir starfi sínu lausu fljótlega eftir það.

Starfsemi félagsins lá að mestu niðri styrjaldarárin og milli stríða, en heimildir eru þó til um keppnir á vegum félagsins frá þeim tíma.

Formleg starfsemi Skotfélags Reykjavíkur var síðar endurreist árið 1950. Að þeim framkvæmdum stóðu kraftmiklir skotfélagsmenn sem reistu grunn að þeirri starfssemi sem Skotfélagið og skotíþróttir á Íslandi búa að í dag. Starfsemi félagsins til útiæfinga hefur síðan 1950 verið í Leirdal við Grafarholt í Reykjavík. Árið 2000 varð sú starfsemi að víkja fyrir íbúðarbyggð Reykvíkinga. Síðan 1950 hefur Skotfélagið einnig haft fjölbreytta starfsemi á sínum vegum innanhúss á ýmsum stöðum í borginni. Fyrst byrjuðu menn æfingar í kjallara við Laugarveg 116, þar sem Egill Vilhjálmsson hf. var með rekstur. Næst fluttu menn starfsemina í íþróttahúsið á Hálogalandi, þar sem starfsemin blómstraði. Þaðan fluttu SR menn æfingaaðstöðuna í kjallara Laugardalshallar og loks í Baldurshaga í kjallara stúkunnar við Laugardalsvöll, þar sem hægt var að skjóta á 50 metrum. Í Baldurshaga var mikil gróska í starfinu og m.a. keppti Carl J. Eíríksson, úr Skotfélagi Reykjavíkur, á Ólympíleikunum í Barcelona árið 1992 í Enskri keppni (60skot liggjandi á 50 metrum með riffli).

Skotfélag Reykjavíkur varð að víkja með starfsemi sína 1993 úr Baldurshaga og hafði til skamms tíma einungis aðstöðu til bráðabirgða í kjallara Laugardalshallar þar sem eingöngu var æft og keppt með loftbyssum á 10 metrum. Starfsemi félagsins í innigreinum var loks flutt í Egilshöllina í Grafarvogi árið 2004, þar sem félagið hefur reist framtíðar aðstöðu.

Uppbygging skotíþróttarinnar á gamla svæði félagsins í Leirdal var í góðum farvegi og árangur skotmanna í mikilli framför þegar því var lokað árið 2000. Til marks um það tók Alfreð Karl Alfreðsson, úr Skotfélagi Reykjavíkur, þátt á Ólympíuleikunum í Sydney í haglabyssugreininni Skeet sama ár.

Starfsemi félagsins lág niðri í útiskotgreinum um árabil á árunum 2000 til 2007 vegna aðstöðuleysis, en margskonar tafir við framkvæmdir nýs svæðis urðu hjá borgaryfirvöldum sem orsökuðu það. En framtíð Skotfélags Reykjavíkur hefur verið tryggð til framtíðar í Reykjavík með tilkomu inniaðstöðu í Egilshöll og útisvæðis á Álfsnesi.

Á árinu 2004 hófst starfsemi félagsins í innigreinum í nýju skothúsi í Egilshöll, en þar er aðstaða fyrir flestar greinar skotíþrótta, sem stundaðar eru innanhúss, s.s. æfingar og keppnir í skotgreinum á 25- og 50 metra brautum og á 10 metra brautum.

Starfsemi félagsins hófst á nýju útiskotsvæði á Álfsnesi á árinu 2007. Með opnun svæðisins á Álfsnesi er lagður grunnur að miðstöð fyrir alla þá sem stunda skotíþróttir og skotfimi hverskonar. Svæðið er hannað sem íþróttasvæði fyrst og fremst, en einnig er gert ráð fyrir aðstöðu fyrir skotveiðimenn til æfinga og ekki síst aðstaða fyrir þá sem stunda skotfimi sem tómstundasprort. Á Álfsnesi er skotsvæði sem er löglegt fyrir alþjóðamótahald og er stefnt að því að haldin verði alþjóðaskotmót á svæðinu, s.s. skotgreinar á Smáþjóðaleikum, Norðurlandamót í haglagreinum, Bench-Rest riffilkeppnir osfv. Skotsvæði félagsins á Álfsnesi er heilsárssvæði og þar er aðstaða fyrir skammbyssu-, riffla- og haglabyssugreinar. Smáþjóðaleikarnir fóru fram í Reykjavík árið 2015 og var skotfimin haldin m.a. á Álfsnesi.

Alls fjórir Skeetvellir ásamt Trap og Sportingvöllum eru á svæðinu á Álfsnesi. Riffilvöllur félagsins er einn sinnar tegundar á landinu, en nokkrar nýjungar eru á honum, m.a. í skotskýlinu og á skotbananum, með tilliti til öryggis og aðstöðu fyrir skotmenn. Riffilvöllurinn er einnig hannaður með það fyrir augum að íslendingar geti haldið erlend mót í flestum riffil og skammbyssugreinum. Lengsta færi á riffilvellinum er 300 metrar.

Engin aldurstakmörk eru á inngöngu í félagið, en viðkomandi umsækjandi þarf að vera orðinn15 ára til að geta hafið æfingar hjá félaginu með skriflegu samþykki foreldris / forsjáraðila.

Í félaginu hefur verið lagður grunnur að unglingastarfi og nú þegar hafa nokkrir unglingar látið að sér kveða með glæsilegum árangri í loftbyssugreinum.

Skotfélag Reykjavíkur hefur átt þrjá fulltrúa á Ólympíuleikum, Carl J. Eiríksson í Enskum Riffli 1992 í Barcelona, Alfreð Karl Alfreðsson í Skeet 2000 í Sidney, Ásgeir Sigurgeirsson í Frjálsri Skammbyssu og Loftskammbyssu 2012 í London og Ásgeir tók einnig þátt í Loftskammbyssu 2021 í Tókýó.

Skotfélag Reykjavíkur er í auknum samskiptum við erlend skotfélög og verður mótahald með erlendum keppendum meira áberandi í framtíðnni en hingað til á völlum félagsins, sem væntanlega mun skila reynslu og þekkingu í auknu mæli til skotíþróttafólks hér heima.


Skothúsvegur, horft í austur með Hallgrímskirkju í baksýn.Heiðursfélagar Skotfélags Reykjavíkur:

Jóhannes Christensen

Axel Sölvason

Egill J. Stardal

Sverrir Magnússon

Bertil Olsen

 

FÁNI FÉLAGSINS SEM GEYMDUR ER Á ÞJÓÐMINJASAFNINU:

sr fni 1867

Lýsing

Fáni Skotfélags Reykjavíkur, blár silkidúkur, 1,20 x 1,80 cm að stærð, og eru á hann málaðar 2 byssur í kross og vísa hlaupin upp. Byssurnar standa upp í gegnum tó eða samfellu af grænum blöðum en í klofinu milli skeftanna eru púðurhorn og skothylki þrjú. Í boga fyrir ofan þessa mynd stendur með stórum, gylltum stöfum: SKOTFÉLAG REYKJAVÍKUR., en neðan við hana 2. JÚNÍ 1867. Fána þessum er með látúnsbólum tyllt á stöng úr furu, bæsaða, 3,20 m langa og 3,7 cm gilda. Neðan á henni er skór (aurfalur) úr látúni, en annar hólkur með útrennsli efst ofan við fánann, og ofan í þann hólk er stangartoppurinn skrúfaður, sem er stórt C úr kopar með IX innan í, en kórónu yfir (Kristján 9.) og umgerð um allt saman úr stórum akanthusblöðum. Í þessum hólk er einnig látúnseyra, sem í eru festar 2 bláar silkisnúrur með stórum skúfum á endunum. Léður Minjasafni Reykjavíkur um óákveðinn tíma 10/4 1959. Skilað 1969 - nú í Stóru geymslu.

AddThis Social Bookmark Button