Smáþjóðaleikarnir að hefjast Skoða sem PDF skjal
Sunnudagur, 31. maí 2015 07:40

Skotíþróttir á Smáþjóðaleikunum.

Nú styttist í að keppni í skotíþróttum hefjist á Smáþjóðaleikunum í Reykjavík. Það eru loftriffilskyttur í karlaflokki sem hefja leikinn þriðjudaginn 2. júní og hefst keppni þeirra kl. 9:00
Loftriffil kvenna hefst kl. 13:00 sama dag en keppnin í loftgreinunum fer fram í Íþróttahúsi fatlaðra við Hátún og er ókeypis inn á keppnirnar og þær öllum opnar. Er þetta einstakt tækifæri til að fylgjast með toppskyttum í keppni.
Í loftriffli karla eru það Sigurbergur Logi Benediktsson og Theodór Kjartansson sem keppa fyrir Íslands hönd en í kvennaflokki eru Jórunn Harðardóttir og Íris Eva Einarsdóttir, Íslandsmethafinn, í eldlínunni en Íris Eva varð í 5. sæti á Smáþjóðaleikunum í Lux 2013

Miðvikudaginn 3. júní láta loftskammbyssuskyttur ljós sitt skína. Karlaflokkurinn hefst kl. 9:00 og þar keppa Ívar Ragnarsson og Thomas Viderö fyrir Íslands hönd. Thomas á titil að verja því hann sigraði í þessari grein á síðustu Smáþjóðaleikum sem fram fóru í Luxemborg 2013. Spennandi verður að sjá hvernig Thomasi tekst upp við titilvörnina. Fremsta loftskammbyssuskytta okkar Íslendinga, Ásgeir Sigurgeirsson, verður fjarri góðu gamni á þessum Smáþjóðaleikum því hann reynir að tryggja sig inn á næstu Ólympíuleika á Heimsbikarmóti í Munchen í Þýskalandi, sem fram fer á sama tíma.

Jórunn Harðardóttir, fjölhæfasta skotkona okkar Íslendinga, keppir, ásamt Guðrúnu Hafberg, í loftskammbyssu kvenna sem hefst kl. 13:00 þennan sama dag. Jórunn náði 2. sæti í loftskammbyssu á Smáþjóðaleikunum í Luxembourg 2013. Verður spennandi að sjá hver árangur hennar verður að þessu sinni.
Guðrún hélt upp á sextugs afmæli sitt í janúar á þessu ári en það segir okkur bara að skotíþróttir eru fyrir alla. Það kæmi ekki á óvart ef Guðrún sé elsti keppandinn á Smáþjóðaleikunum að þessu sinni.

Fimmtudaginn 4. júni halda skotíþróttirnar áfram en þá færist keppnin upp á Álfsnes þar sem keppt verður í 60 skotum liggjandi (Enskum riffli) á glæsilegum skotvelli Skotfélags Reykjavíkur. Þar keppa Guðmundur Helgi Christensen og Jón Þór Sigurðsson fyrir Íslands hönd en Jón Þór setti nýtt íslandsmet, 622.2 stig á Íslandsmeistaramótinu núna í lok apríl.
Síðasti keppnisdagur skotíþróttanna verður föstudaginn 5. júni en þá verður keppt í Skeet á Álfsnesi. Þar eigum við Íslending tvo sterka keppendur, þá Sigurð Unnar Hauksson og Örn Valdimarsson. Gaman yrði að sjá annan hvorn þeirra sigra á þessum leikum en óvíst hvort það gerist því helsti keppinautur þeirra er Antonakis Andreou frá Kýpur. Antonakis Andreou er mjög sterkur skotmaður. Hann varð í níunda sæti á Olympíuleikunum 1996 og í áttunda sætinu í skeet á Ólympíuleikunum 2000. Á Olympíuleikunum í London 2012 varð Antonakis Andreou í 22. sæti. Ennfremur hefur Antonakis orðið Evrópumeistari fjórum sinnum, þar af tvisvar sem unglingur.
Þá má geta þess að hann sigraði á Smáþjóðaleikunum 1997 sem haldnir voru á Íslandi það ár.
Þá var keppt í skeet á skotvelli Skotdeildar Keflavíkur í Höfnum og hrepptu keppendur keppendur þá ekta íslenskt sólarveður, norðangarra og 2ja stiga hita. Sagðist Andreou eftir það að hann myndi aldrei koma aftur til Ísland en sem betur fer virðist hann hafa gleymt þeirri yfirlýsingu sinni.

Kynnir skotíþrótta á þessum leikur verður ítalinn Petra Zublasing en hún var kjörin skotkona ársins 2014 hjá Alþjóða skotíþróttasambandinu, ISSF. Petra keppir í riffilgreinum og náði hún 12. sæti, bæði í loftriffli og í þrístöðu á Olympíuleikunum í London 2012. Á síðasta ári sigraði hún í loftriffli á Heimsmeistaramótinu, náði 4. sæti í þrístöðunni og 5. sæti í 60 skotum liggjandi, (enskum riffli).

AddThis Social Bookmark Button