Skotfélag Reykjavíkur 150 ára á nýju ári... Skoða sem PDF skjal
Föstudagur, 30. desember 2016 11:59

Nú er enn og aftur komið að tímamótum í starfi félagsin og við minnumst starfsins á árinu, sem er að líða, um leið og við horfum fram á veginn á nýju ári.

Á nýju ári, þann 2. júní nk. verður Skotfélag Reykjavkur 150 ára. Já, Skotfélag Reykjavíkur er elsta íþróttafélag íslands, stofnað 2. júní 1867. Við munum halda uppá...

...afmæli félagsins í byrjun júní á næsta ári. Það eru ekki mörg félagasamtök og eða fyrirtæki, sem geta státað sig af þeim árangri að halda uppá 150 ára afmæli á næstunni.

 

Stjórn félagsins vill þakka öllum þeim fjölmörgu sem komu að starfinu á árinu. Mikið starf hefur verið unnið af sjálfboðaliðum við íþróttina og er afraksturinn glæsilegur. Við eigum m.a. skotíþróttafólk ársins, þau Jórunni Harðardóttur og Ásgeir Sigurgeirsson.

Mikil og óeigingjörn vinna hefur verið unnin af félagsmönnum við allskonar viðhald, viðgerðir og uppsetningu búnaðar, í Egilshöll og á útisvæðinu á Álfsnesi. Of langt mál er að rekja í smáatriðum allt það sem okkar fólk hefur áorkað, og enn og aftur í sjálfboðavinnu. Eins og svo oft hefur verið minnst á áður, hér á síðunni og á fundum félagsins; „Það er ekkert félag án sjálfboðaliða“

Auðvitað eru fjölmörg verk óunnin á öllum svæðum félagsins, en með hækkandi sól verður farið í framkvæmdir á haglavöllum, riffilvelli og í Egilshöll. Þar eru ýmis verkefni, svo sem viðhald, endurnýjun búnaðar, að ljúka við byggingu sportingvallar og margt fleira.

Skrifstofa félagsins er opin að vanda, þangað er hægt að senda inn erindi á tölvupósti, hafa samband í síma osfv. Frekari upplýsingar eru að finna á heimasíðu félagsins.

Fjölmög afrek hafa verið unnin í öðrum greinum skotíþróttarinnar innan okkar raða, sem er of langt mál er að tíunda hér, en allar upplýsingar um afrek okkar fólks á árinu, sem er að líða, er að finna á heimasíðu okkar.

Hér að neðan má m.a. sjá ávöxt í íþróttastarfi félagsins á liðnum árum:

Tekið af heima síðu Stí, www.sti.is

„Skotíþróttasamband Íslands hefur valið eftirtalda sem Skotíþróttamenn ársins 2016 :
Skotíþróttakarl Ársins er: Ásgeir Sigurgeirsson úr Skotfélagi Reykjavíkur

Ásgeir Sigurgeirsson (f.1985) er landsliðsmaður í Loftskammbyssu og Frjálsri skammbyssu.

Ásgeir vann öll mót sem hann tók þátt í hérlendis en keppti auk þess víða erlendis. Hann er ríkjandi Íslandsmeistari í báðum sínum greinum, Frjálsri skammbyssu og Loft skammbyssu.

Hann varð m.a. í 9.sæti á Heimsbikarmótinu í Brasilíu, í 12.sæti á Heimsbikarmótinu í Thailandi og á Evrópumeistaramótinu í Ungverjalandi endaði hann í 19.sæti af 81 keppanda.

Ásgeir keppir með liði sínu TSW Götlingen í Þýsku Bundesligunni nokkrar helgar yfir vetrartímann. Hann er einn fárra erlendra keppenda í þýsku deildinni en einungis bestu skotmennirnir komast að hjá þýsku liðunum. Hann er nú efstur keppenda á mótinu í suðurdeildinni í Þýskalandi.

Ásgeir er sem stendur í 37.sæti á heimslistanum en hann fór þar hæst í 20.sæti á árinu. Hann er í 17.sæti á Evrópulistanum en þar fór hann hæst í 9.sæti á árinu.

Skotíþróttakona Ársins er: Jórunn Harðardóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur

Jórunn Harðardóttir (f.1968) er landsliðskona í riffli og skammbyssu.

Jórunn varð Íslandsmeistari í Þrístöðu með riffli og í Loftskammbyssu. Hún varð í 38.sæti á Evrópumeistaramótinu í Ungverjalandi og í 79.sæti á Heimsbikarmótinu í Þýskalandi.

Jórunn er sem stendur í 103.sæti á Heimslistanum og í 54.sæti á Evrópulistanum“

Stjórn félagsins óskar félagsmönnum og velunnurum, velfarnaðar á nýju ári...

AddThis Social Bookmark Button