Þriðjudagur, 24. júlí 2018 07:44 |
Skotfélag Reykjavíkur hélt riffilnámskeið síðustu helgi fyrir félagsmenn sína sem hafa keppt fyrir félagið undanfarin misseri í ISSF riffilskotgreinum. Auk þeirra tóku þátt tveir félagsmenn Skotíþróttafélags Kópavogs sem eru á leiðinni á heimsmeistaramót í S-Kóreu síðar í haust.
Kennarar á námskeiðinu voru þau Snjezana Pejcic frá Króatíu og Steffen Olsen frá Danmörku en þau eru bæði afburða keppnismenn í loftriffli, prone og þrístöðu í 50 og 300 m riffli. Snjezana á t.d. gildandi heimsmet í þrístöðu kvenna, er í efsta sæti heimslistans í þrístöðu, vann til bronsverðlauna á Olympíuleikunum í Peking og hefur unnið til yfir 20 verðlauna á heimsmeistara-, Evrópu- og heimsbikarmótum. Steffen er margkrýndur danskur meistari og hlaut silfur í þrístöðu á síðasta heimsbikarmóti í Fort Benning og er í níunda sæti á heimslistanum í þrístöðu. Einnig lumar hann á fjölmörgum Danmerkurmetum í hinum ýmsu riffilgreinum.
Æfingabúðirnar tókust með eindæmum vel og voru Snjezana og Steffen iðin við að segja nemendum til, stilla riffla og lagfæra stöður. Margir „ósiðir“ voru lagaðir svo sem takmörkuð eftirmiðun sem hrjáði flesta! Það var gaman að sjá hversu mikið grúppur einstaklinga minnkuðu mikið og var sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu miklum framförum unglingarnir náðu. Nú er því komið að því að melta allar þessar nýju upplýsingar og byrja stífar æfingar til að halda áfram þar sem frá var horfið.
|