Til hamingju allir félagsmenn, 153 ár í dag frá stofnun félagsins okkar.
Skotfélag Reykjavíkur á sér langa sögu í borginni, en það er elsta íþróttafélag landsins og var stofnað 2. júní árið 1867. Fyrstu skotæfingar félagsins fóru fram við tjörnina í Reykjavík en heimildir um skotæfingar við Tjörnina ná enn lengra aftur eða til ársins 1840. Það er því rík hefð fyrir skotfimi í Reykjavík.
Skothúsvegur við Tjörnina í Reykjavík dregur nafn sitt af Skothúsi Skotfélags Reykjavíkur, en skothúsið var reist af skotfélagsmönnum um það leyti sem félagið var stofnað. Húsið stóð u.þ.b. þar sem nú er Tjarnargata 35, og hét þá því formlega nafni "Reykjavigs Skydeforenings Pavillon". Skothúsið, eins og það var kallað í daglegu tali, var félagsheimili skotfélagsmanna, sem síðar var notað sem íbúðarhús og loks rifið um 1930. Skothúsvegur liggur milli Suðurgötu og Laufásvegar, í austur og vestur, þvert yfir Tjörnina og er að hluta á brú sem var smíðuð árið 1920.
Starfsemi Skotfélags Reykjavíkur á sér lengri forsögu en frá formlegri stofnum þess 1867. Íslenskir og danskir menn stóðu að stofnun félagsins árið 1867. Fyrir stofnun félagsins voru stundaðar skotæfingar við Tjörnina í Reykjavík frá árinu 1840. Þá voru leyfðar skotæfingar á litlum tanga sem lá út í Tjörnina þar sem Skotfélagsmenn reistu síðar skotvörðu rétt austan við Skothúsið. Skotfélagsmönnum var gert að skjóta í suður í áttina að Skildingarnesi. Skotstefnan var samsíða Suðurgötu í átt að Skerjafirði.
Á árunum eftir stofnun félagsins mættu menn reglulega til æfinga í hverri viku og margar keppnir í skotfimi voru haldnar og verðlaun veitt fyrir góðan árangur. Á fyrstu árum félagsins var hefðarbragur á allri starfssemi, enda helstu fyrirmenn bæjarins meðlimir í Skotfélaginu. Þegar æfingar Skotfélagsins voru haldnar var gefin út viðvörun til bæjarbúa og þeir varaðir við að vera á ferli á melunum og í skotlínu skotmanna, vegna slysahættu af völdum skota. Þannig var háttur á hafður á skotsvæði Skotfélags Reykjvíkur við Skothúsveg að hlaðin var steinvarða við enda skotbrautarinnar og var skotmarki úr timbri stillt upp við hana. Guðmundur, sem var utangarðsmaður í Reykjavík á þessum tíma, hafði þann starfa að standa á bak við vörðuna þegar skotæfingar voru haldnar. þegar hlé var gert á skothríðinni fór Guðmundur fram fyrir vörðuna og benti með flaggi á hvar skotin höfðu hitt í skífuna og af þessu fékk hann viðurnefnið "Vísir". Þar sem timbur skotskífur entust illa var síðar tekin í notkun skotskífa úr stáli og sagði Guðmundur Vísir starfi sínu lausu fljótlega eftir það.
|