Þriðjudagur, 27. desember 2011 09:49 |
Í áhugaverðri grein sem Sigurður E.Þórólfsson, íþróttafréttamaður, ritar í Fréttablaðið í dag, er hann m.a. að bera saman árangur íslenskra íþróttamanna í hlutfalli við þá bestu. Þar kemur fram að að okkar bestu íþróttamaenn eru ansi nærri þeim bestu í heiminum þegar reiknað er í prósentum. Ekkert var fjallað um skotmenn frekar en fyrri daginn. Ég gerði því að gamni léttan samanburð á Íslandsmetum okkar bestu skotíþróttamanna. Í frjálsri skammbyssu á Ásgeir Sigurgeirsson Íslandsmetið, 565 stig sem hann setti í sumar. Heimsmetið í greininni á Sovétmaður síðan á ólympíuleikunum í Moskvu 1980, 581 stig. Met Ásgeirs er því aðeins 2,7% frá því. Ásgeir á einnig metið í loftskammbyssu, 586 stig. Heimsmetið er 594 stig og er því met Ásgeirs aðeins 1,3% frá heimsmetinu ! Í haglabyssu skeet á Örn Valdimarsson Íslandsmetið 120 stig síðan á HM í sumar. Heimsmetið er 125 stig og því met Arnar aðeins 4% frá því. Metið með final í Skeet á Sigurþór Jóhannesson, 143 stig en heimsmetið er 150 og er þar munurinn aðeins 4,6%. Jórunn Harðardóttir á Íslandsmetið í loftskammbyssu kvenna með final, 467,9 stig en heimsmetið er 493,5, sem þýðir að met Jórunnar er aðeins 5,1% frá því. Það er því deginum ljósara að skotíþróttamenn okkar eru klárlega meðal bestu íþróttamanna þjóðarinnar í dag og jafnvel þótt víðar væri leitað. Ásgeir er t.d. í 41.sæti á heimslista í frjálsri skammbyssu og í 61.sæti í loftskammbyssu. Örn er í 79.sæti á heimslistanum í skeet. Einnig má geta þess að skor Ásgeirs í frjálsu skammbyssunni var 6.besti árangur einstaklings á árinu í þeirri grein. /gkg
|