Umsögn stjórnar Skotfélags Reykjavíkur um Vopnalagafrumvarp Innanríkisráðherra hefur borist Allsherjarnefnd Alþingis og verður aðgengileg á vef nefndarinnar innan skamms. Eins hefur Skotíþróttasamband íslands sent inn umsögn. Umsögn félagsins er hér að neðan :
Allsherjar-og menntamálanefnd Alþingis
Athugasemdir við 183.mál lagafrumvarp um Vopn,sprengiefni og skotelda.
Reykjavík, 30.október 2012
Stjórn Skotfélags Reykjavíkur fagnar framkomnu lagafrumvarpi og telur það vera til
verulegra bóta hvað varðar almenna notkun skotvopna. Við óskum sérstaklega eftir því við nefndarmenn að þeir geri greinarmun á okkur sem skotíþróttamönnum og glæpamönnum sem tilgreindir eru í skýringum (sjá skýringar um 17.gr.) með frumvarpinu.
Eins er vísað til einhverra aðila sem hafa fengið leyfi fyrir skotvopnum á íþróttalegum forsendum (sjá skýringar um 6.gr.) en eru ekki taldir hæfir samkvæmt orðalagi í skýringunum. Við gerum þá kröfu á yfirvöld að þau skilji á milli þessara hópa og bendli okkur ekki við þá.
Glæpamenn fara ekki að lögum og því mikilvægt að tekið sé tillit til löghlýðinna borgara við setningu þessara laga því þau eru fyrst og fremst um þá.
Stjórnin gerir athugasemdir við þau atriði sem hér að neðan greinir:
2.grein.
Í þessari grein er upptalning á þeim vopnum sem lögin taka ekki yfir og þau vopn sem ráðherra í samráði við utanríkisráðuneytið, setur reglur um. Við viljum benda á það atriði sem lýtur að skotvopnasöfnum. Í mörgum tilvikum er nánast ógjörningur fyrir safnara og söfn, að verða sér úti um söfnunarvopn, jafnvel þó þau hafi verið gerð óvirk. Verðmæti slíkra vopna er oft afar mikið og á færi örfárra að eignast slíka hluti. Við viljum því leggja til að löglegum söfnurum og söfnum verði gert mögulegt að eignast eftirlíkingar til jafns við óvirk vopn, sem verði skráðar í söfnunarleyfi þeirra.
Til að gera þeim það kleift verður að taka það fram í þessari grein og leggjum við því til að við greinina bætist liður sem orðist svo :
k. Eftirlíkingar skotvopna fyrir söfn og safnara.
6.grein.
Í þessari grein er líst þeim tækjum og byssum sem bannað er að flytja inn. Í athugasemdum með greininni er vikið að grunsemdum um misnotkun á gildandi ákvæðum um undanþágur til íþróttaskotfimi.
Þessar fullyrðingar koma okkur mjög á óvart og höfum við ekki heyrt af þessum grunsemdum fyrr. Ætla má að það ætti að reynast lögreglu auðvelt að taka þá á þessum aðilum sem þá grunar um misferli en setja ekki alla skotíþróttamenn undir þennan lið.
Til að taka af allan vafa um íþróttabyssur viljum við leggja til að eftirfarandi liður bætist við 6.greinina og orðist þannig:
j. Víkja skal frá ákvæðum 2. og 3.töluliðar ef byssurnar eru sérstaklega ætlaðar til íþrótta samkvæmt reglum alþjóða skotsambandsins ISSF, Skotíþróttasambands Íslands STÍ eða annars viðurkennds alþjóðasambands um íþróttaskotfimi.
10.grein.
Í þessari grein er verið að leggja til bann við innflutningi á hálfsjálfvirkum skammbyssum sem taka miðkveikt hylki. Þar er þó um að ræða eina af greinum alþjóða skotsambandsins ISSF, STÍ og ÍSÍ. Greinin er “Center Fire Pistol” Gróf skammbyssa en í henni er keppt á Íslandsmóti hérlendis. Hún er einnig mikið stunduð af félagsmönnum skotfélagsins.
Geta má þess einnig að vopnalaganefndin lagði til að allar skammbyssur yrðu leyfðar en þó með ströngum skilyrðum. Í fyrstu drögum ráðherra var búið að banna þær allar en við framlagningu frumvarpsins á Alþingi var búið að taka út bannákvæði á byssum sem nota randkveikt hylki.
Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hefur nú þegar gert veigamiklar breytingar á skilgreiningu þeirra byssa sem má flytja inn til notkunar í þessari grein og með því takmarkað mjög fjölgun þeirra.
Innanríkisráðherra hefur breytt þessari grein frá því að vopnalaganefndin skilaði tillögum sínum. Nefndin vildi leyfa allar skammbyssur með ströngum skilyrðum en nú stendur eftir bann á allar grófar skammbyssur. Við leggjum til að við greinina bætist:
….fyrir miðkveikt og randkveikt hylki…
19.grein.
Hér verið að leggja til hámarkseign á byssum verði miðuð við fjölda, 20 byssur. Við höfum áður lagst hart gegn þessu ákvæði. Við vitum ekki til þess að þeir aðilar (ca. 60-70 manns) sem eiga fleiri en 20 byssur hafi komið við glæpasögu þjóðarinnar. Eins má ætla að þessir aðilar séu með bestu skotvopnageymslur sem þekkjast hjá eigendum skotvopna.
Í skýringum við greinina er nefnt að ekki verði við það unað að einstaklingar komi sér upp VOPNABÚRUM! Vopnabúr samanstendur af tugum vopna sömu gerðar og þorum við að fullyrða að einstaklingar hérlendis með gild skotvopnaleyfi, eiga ekki vopnabúr. Vopnabúr má ætla að gætu verið hjá glæpagengjum erlendis en hérlendis hafa engar upplýsingar birst um að slík vopnabúr séu til landinu.
Með þessu ákvæði er verið að leggja stein í götu löghlýðinna borgara við að sinna sínu áhugamáli með löglegum hætti. Þeim er gert ókleyft að bæta við byssueign sína til frambúðar. Með þessari grein getur sumt af okkar besta skotíþróttafólki sem keppir á alþjóðlegum mótum t.d. ekki uppfært keppnisbyssur sínar.
Í dönsku vopnalögunum er einmitt tekið á þessum fjöldatakmörkunum þannig að við byssueign umfram 25 stk. eru eigendur skyldaðir til að uppfylla auknar kröfur um geymslumál.
Við viljum því leggja til að við 4. málsgreinina bætist grein sem hljóði eitthvað í þessa átt:
Lögreglustjóra er heimilt að veita einstaklingi leyfi til að eignast fleiri skotvopn en 20, enda uppfylli hann skilyrði sem sett eru í 27.grein og 29.grein þessara laga um vörslu skotvopna og skotfæra.
23.grein um sölu vopna
„Eiganda skotvopns er óheimilt að selja, gefa eða afhenda á annan hátt skotvopn sem bannað er í lögum þessum eða reglum samkvæmt þeim. Selja má þó slík vopn úr landi. að fengnu leyfi lögreglustjóra“
Það hljóta að vera mistök að setja slíkt ákvæði í lagadrögin. Þetta jafngildir upptöku á þeim vopnum sem hingað til hafa verið lögleg hér á landi og stenst væntanlega ekki ákvæði í stjórnarskrá að mati lögmanna. Við skulum ekki gleyma því að hér er um veruleg verðmæti að ræða og því alls ekki léttvægt að gera mönnum ókleyft að selja tækin hérlendis.
Auk þess er það ekki á færi einstaklinga að selja skammbyssur úr landi. Að auki eru kvaðir um endurútflutningsbann frá erlendum framleiðendum þegar vopn eru flutt inní landið.
Við leggjum til að:
2.mgr. 23.greinar verði felld út úr frumvarpinu.
23.grein um hljóðdeyfa
Heyrnarskemmdir við skotfimi eru algengar en skotmenn reyna eftir fremsta megni að hindra það m.a. með heyrnarhlífum og eyrnatöppum.
Í Reykjavík hefur komið til tals að leyfa skotfimi á sunnudögum á skotsvæði félagsins gegn kröfu um að rifflar verði með hljóðdeyfum. Við teljum að ekki ætti neitt að vera því til fyrirstöðu að leyfa hljóðdeyfa við æfingar og veiði gegn því að þeir verði skráðir til notkunar á hvert skotvopn fyrir sig og fylgi þannig byssunni.
Ekki er okkur ljóst hvers vegna hljóðdeyfar eru álitnir hættulegir sem slíkir. Notkun á þeim er helst sýnileg í bíómyndum frá millistríðsárunum sem hefur lítið með nútímann að gera. Löglegir skotvopnaeigendur eru löghlýðnir borgarar og vilja aðeins vernda heilsu sína með hjálp hljóðdeyfa.
Tillaga að viðbótarákvæði:
Eins er lögreglustjóra heimilt að veita undanþágu til notkunar að læknisráði, vegna krafna á íþróttasvæðum eða annarra ástæðna sem hann metur hæfar, skv.nánari skilgreiningu í reglugerð.
2.setning 6.mgr. breytist og verði orðuð þannig:
Eingöngu er heimilt að veita leyfi fyrir hljóðdeyfi á riffla og haglabyssur.
|