Skotfélag Reykjavíkur á nýju ári með nýjar áherslur ! Skoða sem PDF skjal
Fimmtudagur, 01. janúar 2009 00:09

Þegar litið er yfir farinn veg síðustu missera í starfi félagsins þá einkennast þau af framkvæmdum við skotvallagerð fyrir inni- og útiskotgreinar. Nú er komið nýtt ár, með nýjum áherslum, framkvæmdum er að mestu lokið og uppbygging íþrótta- og félagsstarfsins er framundan. Það er komið að því að félagsmenn og þeir sem nýta sér aðstöðu félagsins geti loks stundað skotíþróttir og tómstundaskotfimi á svæðum félagsins allt árið, bæði í inni- og útigreinum.

Á nýliðnu ári hófst starfsemi félagsins á Álfsnesi og hefur aðsókn á svæðið verið með ágætum og farið vaxandi frá opnun þess á vordögum. Starfsmaður var ráðin til starfa til að sinna svæðinu og að halda því opnu og hefur það fyrirkomulag gefist vel.

 

Svæðið er ekki opið nema á fyrirfram auglýstum tímum líkt og í Egilshöllinni. Miklar breytingar hafa orðið á opnunartímum útisvæðisins frá því sem var í Leirdal, enda skilyrði til starfseminnar allt aðrar en var á gamla svæðinu. Félagið þarf nú að uppfylla skilyrði starfsleyfis yfirvalda á svæðinu og þar meðal annars er ákveðin tímarammi sem skotfimi má fara fram, vegna hugsanlegrar hljóðmengunar frá svæðinu.

 

Hinn gríðarlegi kostnaður við að reisa svæðið á Álfsnesi og rekstrarkostnaður er flestum ljós sem þangað hafa komið. Til að stýra starfseminni, halda utan um starfið og gæta fjárfestinga félagsins er nauðsynlegt að hafa svæðið einungis opið undir eftirliti hverju sinni, eins og gert hefur verið undanfarið. Ekki hefur verið ákveðið hvernig opnunartímum á nýju ári verður háttað, en það verður auglýst síðar.

 

Miklar breytingar hafa orðið í kostnaðarliðum félagsins frá opnun svæðisins vegna efnahagsástandsins í þjóðfélaginu og mun það væntanlega koma niður á æfingagjöldum þegar fram líða stundir. Stefnt er að því að halda æfingagjöldum í lágmarki, en þó þannig að starfsemin standi undir sér og hægt sé að hafa opið sem flesta daga vikunnar til að sem flestir geti nýtt sér svæðið.

Fyrsta tilraun félagsins til að halda Alþjóðamót í Skeet tókst með ágætum, þó frágangi ýmiskonar hafi ekki verið að fullu lokið. Erlendu gestirnir sem kepptu á mótinu sáu ástæðu til að taka sérstaklega fram hve aðstaðan öll væri til fyrirmyndar og svæðið glæsilega hannað í alla staði og gott að skjóta á því. 

Starfsemin í Egilshöllinni er í stöðugum vexti eins og fyrri ár og ber þá einna hæst glæsilegur árangur og framfarir í skotíþróttinni. Auk skotíþróttanna hefur verið lögð áhersla á að aðstaðan er einnig ætluð fyrir tómstundarskotfimi og að allir eru velkomnir til að stunda skotfimi þar eins og á útisvæðinu, en þó innan þess ramma sem reglur segja til um. 

Á nýju ári verður haldið áfram að bjóða upp á kennslu og þjálfun í haglabyssugreinum og stefnt verður á að hefja námskeið í flestu því sem við kemur skotíþróttum og almennri skotfimi á árinu og á næstu árum í inni- og útigreinum.  Nú er komið að þeim tímamótum í starfi félagsins þar sem félagsmenn verða kallaðir til starfa í þeim greinum sem þeir hafa þekkingu og reynslu, til að leiðbeina fólki, stýra æfingum og kenna fróðleiksfúsum nýliðum sportið og íþróttina. 

Starfsemi, vöxtur félagsins og framtíð þess er undir því komin að félagsmenn taki að sér hin ýmsu trúnaðarstörf til uppbyggingar á skotíþróttinni og félagsstarfsins og væntir stjórn félagsins að sem flestir sjái sér fært að leggjast á árar í þeim efnum.  Framtíð félagsins verður ekki tryggð nema að hinn almenni félagi komi að þeim verkefnum sem framundan eru. Starfið á nýju ári og næstu framtíð ræðs af því. Ekki er ástæða til annars en ætla að félagsmenn taki nú höndum saman og efli starfið í heild, eins og nú þegar er vísir að í innistarfinu í Egilshöll. 

Stjórn félagsins óskar félagsmönnum og velunnurum farsældar á nýju ári !

AddThis Social Bookmark Button