Þriðjudagur, 18. maí 2021 16:54 |
Síða 2 af 2
Öllum óskum um slíka fyrirgreiðslu hefur verið neitað staðfastlega og vísað til þess að forgangsröðun heilbrigðisyfirvalda varðandi bólusetningar verði ekki haggað. Því hefur afreksíþróttafólk landsins þurft að fara óbólusett í stór og krefjandi verkefni og í undankeppnir fyrir stórmót á efsta stigi viðkomandi íþróttar. Það hefur tekið áhættu á því að smitast af kórónuveirunni til að freista þess að viðhalda árangri landsins í íþróttum, árangri sem tekið hefur mörg ár að byggja upp. Að auki hefur íþróttafólkið og fylgdarlið þurft að dvelja langdvölum í sóttkví sem oftar en ekki raskar æfingaáætlunum og mögulega þátttöku í mótum auk kostnaðar sem af því hefur hlotist.
Það vakti því undrun að fá af því fregnir að hópur sem keppir fyrir Íslands hönd í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva (Eurovision) hafi fengið undanþágu fyrir bólusetningu.
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ) lýsir yfir ánægju með að keppendur fái nú bólusetningu vegna ferða erlendis og mun íþróttahreyfingin krefjast þess að íþróttafólk sem tekur þátt í alþjóðlegum verkefnum fyrir Íslands hönd njóti sömu þjónustu frá yfirvöldum og keppendur á öðrum vettvangi.
Þess má geta að Alþjóðaólympíunefndin (IOC) hefur útvegað bóluefni fyrir alla þátttakendur í Ólympíuleikum og Ólympíumóti fatlaðra (Paralympics) og mun ÍSÍ fá bóluefni fyrir þann hóp sem fer á leikana. Sú ráðstöfun kemur til með aðkomu IOC en ekki íslenskra yfirvalda og nær einungis til þessa þrönga hóps. Vonast er til að þessi bólusetning hefjist í næstu viku í góðu samstarfi við sóttvarnasvið embættis landlæknis.
|