Skotfélag Reykjavíkur á nýju ári ! Skoða sem PDF skjal
Föstudagur, 01. janúar 2010 15:40

Um leið og stjórn félagsins óskar félagsmönnum og velunnurum þess farsældar á nýju ári, þakkar stjórnin öllum þeim sem komu að starfinu á síðastliðnu ári.

Eins og getið var um í áramótapistli síðustu áramóta, var það stefnan að megin verkefni í starfi félagsins á árinu ætti að vera að koma starfsemini í gang í sem flestum skotgreinum og félagsmenn hvattir til að taka virkan þátt í því starfi.  Það má segja að það hafi tekist vonum framar og gamlir og nýjir félagsmenn hafa tekið höndum saman um að koma starfinu í gang.

Mikil og vaxandi ástundun hefur verið á haglavöllum félagsins...

og væntanlega mun starfið þar og ástundun aukast til muna í vor þegar m.a. Trapvélar verða settar í gang.

Sama gildir um riffilvöllin, þar hefur frá opnun verið vaxandi ástundun. Hlað-Norma mótið og BR-Áramótið er væntanlega byrjunin á því sem koma skal á nýju ári. Á þeim mótum var öllum boðin þátttaka og engar sérstakr reglur settar um gerð riffla. Mótin áttu það sameiginlegt að vera bæði skemmtileg og spennandi. Meiningin er að á nýju ári verði haldin regluleg mót í ýmsum riffilgreinum og er undirbúningur þeirra þegar hafin.

Í innigreinunum hefur verið stöðug aukning í ástundun og árangri keppenda. Þeir sem fylgst hafa með fréttum hér á heimasíðu félagsins hafa ekki komist hjá því að taka eftir glæsilegum árangri Ásgeirs Sigurgeirssonar á sl. ári, sem gerði sér litið fyrir og lokaði árinu með því að jafna heimsmet "kvenna" í 40skota póstkepni, ( ALSVENSKA ) sem félagsmenn SR taka þátt í, með Svíum.

Loftbyssugreinarnar eru enn í miklum vexti og má það fyrst og fremst þakka þeim félagsmönnum sem sinna æfingastjórn alla dag vikunnar. Mikil ásókn hefur verið í 50 metra salinn, af þeim sem stunda riffilsportið sem frístundarsport og er það vel, enda aðstaðan ætluð til þess ásamt því að þar er keppt með sérstökum markrifflum.

Mikið hefur verið að gera hjá félaginu að taka á móti hinum ýmsu félagasamtökum sem vilja kynna sér skotíþróttir og prófa sportið. Þetta á við um bæði innigreinarnar sem og útigreinarnar og mun félagið bjóða upp á þessa þjónustu áfram á nýju ári.

Námskeið í riffil- og haglagreinum hafa verið haldin á vegum félagsins og er meiningin að bæta inn í starfið ýmsum námskeiðum á næstu misserum. Reiknað er með að á nýju ári verði aukning í kennslu ýmissa þátta sem viðkemur meðhöndlun skotvopna almennt.

Enn er uppbygging aðstöðunnar í gangi og verður lögð áhersla á að klára aðstöðuna í Egilshöll í vetur, m.a. verður málað, settir upp milliveggir og lýsing endurnýjuð. Með vorinu verður farið að klára ýmsan frágang á Álfsnesinu.

Rétt fyrir áramót hóf annar starfsmaður störf á útisvæðinu og er reiknað með að á næsta tímabili verði að jafnaði tveir að störfum á svæðinu og ekki mun veita af eins og flestir vita.

Stjórn félagsins þakkar enn og aftur samstarfið á liðnu ári og leggur enn og aftur áherslu á að félagsmenn komi til starfa við hin ýmsu störf sem bíða félagsmanna á nýju ári.

Bestu óskir um farsæld á nýju ári, stjórn Skotfélags Reykjavíkur.

 

 

 

 

 

AddThis Social Bookmark Button