Frá Umhverfisráðuneytinu hefur borist niðurstaða í kæru íbúa á starfsleyfi okkar í Álfsnesi. Úrskurðurinn er svohljóðandi:
Þann 15. mars 2010 var í umhverfisráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi ÚRSKURÐUR: Ráðuneytinu barst stjórnsýslukæra með bréfi dags. 12. júní 2009 vegna ákvörðunar Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur um útgáfu starfsleyfis til Skotfélags Reykjavíkur dags. 8. mars 2008. Kæruheimild er í 2. mgr. 32. gr. laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir nr. 7/1998 og eru kærendur íbúasamtök Kjalarness, svo og Eiríkur Hans Sigurðsson og Sigrún Árnadóttir eigendur og ábúendur á jörðinni Skriðu á Álfsnesi. Fyrir hönd kærenda er Ásgeir Jónsson hrl. Í 2. mgr. 32. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir er svo fyrir mælt að ákvarðanir heilbrigðisnefnda um útgáfu starfsleyfa megi kæra til fullnaðarúrskurðar ráðherra innan tveggja vikna frá ákvörðun. Í lögunum eru hins vegar ekki ákvæði um hvernig með skuli fara ef kærur berast eftir þar frá greind tímamörk og gilda því ákvæði 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 um það atriði. Þar er kveðið á um að ef kæra hefur borist að liðnum fresti skuli vísa henni frá nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæru skuli þó ekki sinnt ef meira en ár er liði frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila. Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að um 15 mánuðir liðu frá töku hinnar kærðu ákvörðunar þar til hún sætti stjórnsýslukæru til ráðuneytisins. Lögmanni kærenda var veitt færi á að koma að skýringum vegna þessa fráviks sbr. bréf ráðuneytisins frá 20. ágúst sl., en í athugasemdum sem bárust frá lögmanni kærenda með bréfi dags. 8. september sl. var ekki tilgreint hverju þetta frávik sætti. Að framansögðu virtu verður að vísa frá ráðuneytinu hinni kærðu ákvörðun Heilbrigðisnefndar Reykjavíkur frá 8. mars 2008 um útgáfu starfsleyfis til Skotfélags Reykjavíkur, sbr. áðurgreinda 2. mgr. 32. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir sbr. og 28. gr. stjórnsýslulaga í því sambandi. Lesa má frétt á MBL.is á slóðinni: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2010/03/19/starfsleyfi_fellt_ur_gildi/
|