Mánudagur, 21. maí 2012 10:23 |
34. Skotþing Skotíþróttasambands Íslands (STÍ) fór fram í húsakynnum ÍSÍ í Laugardalnum sl. laugardag. Alls voru 27 þingfulltrúar mættir og góð umræða var á þinginu sem þingforsetinn Jón S. Ólason stýrði röggsamlega. Starfsemi STÍ hefur vaxið stöðugt undangengin ár og síðasta ár var engin undantekning í þeim efnum. Í skýrlsu stjórnar kom m.a. fram góður árangur keppnisfólks á erlendum mótum sem og að stjórn sambandsins hefur unnið ötullega í erlendu samstarfi og er að njóta ávöxt af því í dag. Ný vopnalög sem eru í smíðum eru stærsta áhyggjuefni fyrir STÍ en ef þau yrðu samþykkt óbreytt myndi það þýða að STÍ þyrfti að fella niður nokkrar keppnisgreinar sem yrðu ólöglegar með samþykki þessara laga. Halldór Axelsson var endurkjörinn formaður, Guðmundur Kr. Gíslason var kosinn í aðalstjórn og Jórunn Harðardóttir í varastjórn. Fulltrúar ÍSÍ á þinginu voru þeir Hafsteinn Pálsson og Friðrik Einarsson úr framkvæmdastjórn ÍSÍ. Við þetta tækifæri sæmdi Friðrik Einarsson ritara STÍ, Kjartan Friðriksson, silfurmerki ÍSÍ fyrir störf hans í þágu íþróttahreyfingarinnar.
|