Sunnudagur, 17. janúar 2016 12:14 |
Landsmót Skotíþróttasambands Íslands fór fram í Íþróttahúsinu í Digranesi í Kópavogi í dag, laugardag. Átta keppendur voru skráðir til leiks en tveir boðuðu forföll og því voru það sex keppendur sem kepptu til úrslita. Frjáls skammbyssa er karlagrein og því ekki keppt sérstaklega í kvennaflokki og kepptu því konurnar þrjár, sem þátt tóku í mótinu, við karlana. Það kom ekkert sérstaklega á óvart að Ásgeir Sigurgeirsson, SR, skyldi sigra í mótinu og voru yfirburðir hans töluverðir en hann skoraði 557 stig. Þetta skor Ásgeirs er 8 stigum frá Íslandsmeti hans, sem hann setti í Munchen 18. júní 2011. Thomas Viderö, SFK, varð í öðru sæti með 527 stig og Jórunn Harðardóttir úr SR, varð í þriðja sæti með 511 stig en það er nýtt Íslandsmet kvenna í þessari grein. Í liðakeppninni hafði sveit Skotfélags Reykjavíkur betur í baráttunni við sveit Skotíþróttafélags Kópavogs. SR-ingarnir skoruðu 1546 stig en sveit þeirra skipuðu Ásgeir, Jórunn auk Karls Kristinssonar en liðsmenn sveitar SFK voru Thomas, Bára Einarsdóttir og Guðrún Hafberg og var samanlagt skor þeirra 1440 stig.
|