Keppendur SR voru sigursælir á Íslandsmótinu í skeet um helgina. Mótið var haldið á Akureyri að þessu sinni og tókst í alla staði mjög vel og var Skotfélagi Akureyrar til sóma. Íslandsmeistarar SR eru Ellert Aðalsteinsson í karlaflokki og 1.fl., Dagný H.Hinriksdóttir í kvennaflokki, Gunnar Sigurðsson í öldungaflokki, Karl F. Karlsson í 0.flokki, A-liðið í karlaflokki með innanborðs þá Ellert Aðalsteinsson, Stefán G. Örlygsson og Örn Valdimarsson og kvennaliðið með innaborðs þær Dagnýju H.Hinriksdóttur, Margréti E.Hjálmarsdóttur og Árnýju G. Jónsdóttur. Þær settu jafnframt nýtt Íslandsmet 98 stig ! Í aðalkeppninni var mjög tvísýnt um úrslit fyrr en í lokin en Ellert skaut 113 + 25 í final en Sigurþór Jóhannesson úr SÍH skaut 114+22 í final og munaði því aðeins tveimur stigum í lokin. Keppnin um 3ja sætið var einnig afar hörð og náði Örn Vadimarsson bronsinu en hann skaut 111+23 í final en Pétur Gunnarsson úr SÍH endaði með 111+21 í final. Í kvennakeppninni var sigur Dagnýar nokkuð öruggur en hún skaut 37+11 í final alls 48 stig sem jafnframt er nýtt Íslandsmet með final en Margrét E.Hjálmarsdóttir varð önnur með 34+8 í final. Í þriðja sæti varð svo Helga Jóhannsdóttir úr SÍH með 29+10 fínal.