Fréttir 2005 Skoða sem PDF skjal

31. des 05.  Skotfélag Reykjavíkur um áramót, starfið í Egilshöll og framkvæmdir á Álfsnesi.
Mikið og gott starf hefur verið unnið í Egilshöll allt árið sem nú er að kveðja.  Með tilkomu nýrrar aðstöðu í Egilshöll til iðkunnar skotfimi innanhúss hefur ástundun í riffil - og skammbyssugreinum aukist jafnt og þétt. Mikill áhugi er að vakna meðal eldri félagsmanna og nýrra félaga í SR á 50 metra riffilgreinum. 50 metra greinin, Frjáls Skammbyssa, sem skotin er með sérstökum einskota mark-skammbyssum er einnig að koma inn hægt og hljótt.  Starfið í loftbyssugreinunum fór hægt af stað í byrjun tímabils, en það er vaxandi ástundun í bæði loftriffil - og loftskammbyssugreinum. Aðstaðan í Egilshöll gerir fólki kleift að stunda skammbyssu - og riffilgreinar samtímis, sem eykur notagildi skotbrautana til muna. Ekki þarf að ganga fram í sal til að stilla upp skotmörkum eins og í öðrum skotsölum, því nú senda skotmenn mörkin fram á þar til gerðum brautum eftir loftinu á það færi sem hver og einn er að æfa hverju sinni. Þetta brautarkerfi, sem er eitt sinnar tegundar í landinu, gerir skotmenn að mestu óháða öðrum við æfingar. Um þessar mundir er verið að vinna að frágangi ýmiskonar í Egilshöll, s.s. í setustofu, kaffiaðstöðu, skotsölum þar sem m.a. verður komið fyrir skotbásum í 50metra salnum osfv.  Starfið í Egilshöll hefur verið til fyrirmyndar í vetur og það ber að þakka þeim félagsmönnum sem vinna óeigingjarnt starf við æfingastjórn, skipulagningu móta, mótahald ofl. Með sama áframhaldi geta félagsmenn SR litið björtum augum til framtíðar í innigreinum í Egilshöll, en þar verður lögð meiri áhersla en áður á unglingastarf í framtíðinni ásamt þeim skotgreinum sem nú þegar eru stundaðar.
Vonbrigðin í starfi félagsins á árinu eru framkvæmdirnar við útiskotsvæðið á Álfsnesi.  Eins og fram hefur komið hér á síðunni ríkti mikil bjartsýni um að hægt yrði að hefja starfsemi á svæðinu sl. vor, bæði á riffil - og haglavöllum. Þær vonir brustu af ýmsum ástæðum sem ekki verða tíundaðar hér. Stjórn félagsins hefur ákveðið að tilgreina ekki sérstaka dagssetningu um það hvenær má vænta þess að svæðið komist í gagnið, en það er háð því hvernig fjármögnum þeirra framkvæmdana sem  eftir eru verður háttað.  Síðustu viðræður stjórnarmanna SR við borgaryfirvöld gefa tilefni til að ætla að unnið verði af heilindum að því að finna leiðir til að koma svæðinu í notkunn fyrr en seinna. Nánar verður greint frá framvindu mála á næstu vikum.
Stjórn félagsins þakkar samstarfið á árinu sem er að líða og óskar félagsfólki og velunnurum félagsins gleðilegs nýs árs.

22. des 05.  HORNSÓFA VANTAR Í EGILSHÖLLINA !
Ef þið eruð að skipta út sófasetti um jólin, þá vantar okkur hornsófa í Egilshöllina, helst leður og í góðu ásigkomulagi.  Þið megið þá gjarnan skutla honum til okkar frekar en að henda í Sorpu.  Látið okkur vita á Þetta tölvupóstfang er varið gegn ruslpóstsþjörkum, Þú verður að hafa JavaScript virkt til að sjá það. eða í síma 8931231 Húsnefndin"

18. des 05.  Framkvæmdir á Álfsnesi ganga hægt.
Um þessar mundir er verið að undirbúa uppsetningu haglavalla félagsins á Álfsnesi. Tafir hafa orðið á þeim framkvæmdum m.a. vegna vatns sem safnast saman við vallarstæðin og í undirlagi vallana. Unnið er að því að ræsa vatnið fram og gera varanlegar drenlagnir þannig að vatn verði ekki vandamál á svæðinu til framtíðar.

7. des 05. Íþróttasamband Lögreglumanna hélt Landsmót í loftskammbyssu í Egilshöll í dag.
Skotið var 60 skotum samkvæmt reglum ISSF. Nánar um úrslit dagsins.

1. des 05.  Framkvæmdir við skotsvæðið félagsins á Álfsnesi á fulla ferð ?
Væntanlega fara framkvæmdir við skotsvæðið á fulla ferð í ljósi afgreiðslu Borgarráðs í dag.  Á áætlun er að klára steypuvinnu við riffilskýli í næstu viku. Búið er að steypa sökkla undir félagsheimilið og ráðgert er að fylla inn í grunninn og hífa húsin á sökklana fljótlega. Jafnframt verður farið í framkvæmdir við haglavellina, en fyrst verður að leggja drenlögn til að ræsa fram vatn sem safnast sama við vallarstæðin. Hraði framkvæmda á svæðinu fer að nokkru leiti eftir tíðarfari næstu vikurnar.
Hér fyrir neðan er útdráttur úr fundargerð Borgarráðs frá því í dag, sem tekin var af vef borgarinnar.

Úr fundargerð Borgarráðs frá því morgun :
1.12.2005 - - Fundur nr.4914 - Borgarráð
B O R G A R R Á Ð
Ár 2005, fimmtudaginn 1. desember, var haldinn 4914. fundur borgarráðs.
Fundurinn var haldinn í Ráðhúsi Reykjavíkur og hófst kl. 11:07. Viðstaddir voru, auk borgarstjóra, Alfreð Þorsteinsson, Björk Vilhelmsdóttir, Dagur B.
Eggertsson, Guðrún Ebba Ólafsdóttir, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Stefán Jón Hafstein. Jafnframt sat fundinn Ólafur F. Magnússon.
Fundarritari var Ólafur Kr. Hjörleifsson

8. Lagt fram bréf framkvæmdastjóra Skotfélags Reykjavíkur frá 21. f.m.
varðandi stöðu framkvæmda á fyrirhuguðu athafnasvæði félagsins á Álfsnesi.
Jafnframt lagt fram minnisblað sviðsstjóra framkvæmdasviðs frá 30. s.m.
varðandi málið, þar sem lagt er til að erindinu verði vísað til meðferðar við gerð 3ja ára áætlunar og jafnframt til framkvæmdasviðs til frekari greiningar. R04050166 Minnisblað sviðsstjóra framkvæmdasviðs samþykkt.

 

26. nóv. 05  Arnfinnur Jónsson SFK sigraði á landsmóti STÍ í dag.
Alls tóku sex keppendur þátt í mótinu í morgun í Enskri Þraut ( 60skot liggjandi ) og sigraði Anrninnur með nokkrum yfirburðum. Nánar um úrslit dagsins.
Myndin til vinstri er tekin af keppendunum í dag.

 

 

 

 

25. nóv. 05.  Skotsvæðið Álfsnesi.
Erindi félagsins um fjármögnun áframhaldandi framkvæmda við skotsvæði félagsins á Álfsnesi var sent til borgarráðs í byrjun vikunnar. Erindið var ekki tekið fyrir í gær, en væntanlega verður það tekið til afgreiðslu fimmtudaginn í næstu viku.

24. nóv. 05.  Landsmót STÍ í Enskri Þraut ( 60skot liggjandi )  og í Staðlaðri Skammbyssu um helgina.
Mótið í Enskri Þraut fer fram í Egilshöll á laugardaginn 26. nóv. og hefst það kl 10:00. Keppt er í 60 skota keppni með markrifflum í liggjandi stöðu á 50metra færi. Keppnin er oftast kölluð "60 skot liggjandi" hér heima, en þetta er keppni sem heitir á frummálinu Englis Match. Áhorfendur eru  velkomnir, en keppt er í einum riðli að þessu sinni og tekur keppnin u.þ.b. tvær klst.
Þá fer einnig fram Landsmót í Staðlaðri Skammbyssu í Íþróttahúsinu Digranesi hjá Skotfélagi Kópavogs sunnudaginn 27. nóv. Þar er einnig  keppt í einum riðli, sem hefst kl. 10:00.

19. nóv. 05.  Landsmót í loftbyssugreinum fór fram í dag í Egilshöll.
Hannes Tómasson SR stimplaði sig inn í keppnistímabilið með einu stigi yfir meistaraflokksárangri í loftskammbyssu karla. Nánar um úrslit dagsins.

18. nóv 05.  Fyrsta landsmót tímabilsins í loftgreinum hefst á morgun í Egilshöll.
Mótið byrjar kl 11:00 og er keppt í einum riðli. Sjá riðlaskiptingu hér.

15. nóv. 05.  Framkvæmdir við skotsvæði félagsins á Álfsnesi að stöðvast ?
Líklegt er að framkvæmdir við skotsvæði félagsins á Álfsnesi stöðvist fljótlega, ef ekki fæst fjármagn til að klára það sem eftir er til að koma svæðinu í sama horf og svæði félagsins var komið í árið 2000 í Leirdal, þar sem aðstaða félagsins hafði verið frá árinu 1950 til 2000.  
Ætlunin hafði verið að opna a.m.k. tvo haglavelli og riffilbana í sumar sem leið, en væntingar félagsmanna brugðust í þeim efnum þar sem borgin hefur ekki getað tryggt fjármagn til áframhaldandi framkvæmda. Framkvæmdarstjóri félagsins sendi embættismönnum borgarinnar og þeim sem málið varðar, bréf um stöðu framkvæmda við skotsvæði félagsins á Álfsnesi, þann 11. nóvember sl.
Bréfið er hér fyrir neðan í heild:

Ágætu viðtakendur,

Við vorum að fá neðangreinda niðurstöðu vegna stöðu framkvæmda á fyrirhuguðu athafnasvæði SKOTFÉLAGS REYKJAVÍKUR á Álfsnesi. Nú eru fjármunir þeir sem þegar hafði verið ráðstafað í þessar framkvæmdir þrotnir og framkvæmdasvið, undir stjórn Hrólfs Jónssonar, hefur ekki fengið meira fjármagn til að halda framkvæmdum áfram og klára svæðið þannig að það verði í því ásigkomulagi sem fyrra svæði okkar var komið í árið 2000 þegar við urðum að loka útistarfsemi félagsins í Leirdal, þar sem nú er íbúðabyggð Grafarholts.

Ljóst er að enn vantar á bilinu 30 til 40 milljónir til að klára svæðið og hlýtur það að vera skylda borgarinnar að taka nú til hendinni og veita viðbótarframlagi í þetta verkefni sem þegar hefur tekið 5 ár !!! Hægt væri að koma starfseminni í gang á næstu vikum ef lagður yrði kraftur í að koma svæðinu í lag. Við í stjórn SKOTFÉLAGS REYKJAVÍKUR höfum aðgang að verktökum sem eru tilbúnir að klára verkið, en til þess verður að veita okkur að minnsta kosti vilyrði fyrir fjármagni á næstunni, svo hægt verði að halda áfram. Biðin er þegar orðin óþolandi og kraftur verður að koma í þetta til að koma skyttum höfuðborgarinnar inná löglegt og öruggt svæði.

Skotvellir okkar verða væntanlega vettvangur flestra alþjóðlegra skotmóta í framtíðinni og var þegar búið að gera ráðstafanir til að halda hér Norðurlandamót í haglabyssu strax á næsta ári. Svæðið getur orðið afar aðlaðandi og skemmtilegt fyrir erlenda gesti og mun vafalítið draga til sín gesti af öllum þjóðernum ef við tökum höndum saman og rekum þetta svæði einsog þarf, þ.e. opið allt árið með launuðum starfsmönnum.

Væntum við þess að til þess bærir fulltrúar okkar borgarbúa, taki nú til hendinni og gangi í þetta mál af festu og veiti embætti framkvæmdasviðs svigrúm til að klára þetta verkefni eða veiti okkur umboð til að klára þetta sjálf.

Með vinsemd og virðingu,
Guðmundur Kristinn Gíslason
Framkvæmdastjóri
SKOTFÉLAG REYKJAVÍKUR
ENGJVEGI 6
104 REYKJAVÍK
www.sr.is

10. nóv. 05.  Háskólanemar koma í heimsókn í Egilshöll.
Nemendur í meistaranámi í verkfræði við Háskóla Íslands komu til okkar í heimsókn í síðustu viku og fengu að kynnast sögu félagsins og skotíþróttum. Þeir spreyttu sig einnig í skotfimi með rifflum og skammbyssum. Almenn ánægja var meðal þeirra og heppnaðist heimsóknin í alla staði mjög vel. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir frá kvöldinu.

2. nóv. 05.  Formaður ÍBR í heimsókn á skotæfingu í Egilshöll.
Formaður ÍBR, Reynir Ragnarsson,  kom í heimsókn í Egilshöllina í síðustu viku og skoðaði aðstöðu félagsins. Leist honum afar vel á það starf sem þar hefur verið lagt af mörkum og hvatti okkur til áframhaldandi baráttu fyrir uppbyggingu skotíþrótta í Reykjavík. Þess má geta að allmargir hafa gengið í félagið í haust til að nýta sér þessa fábæru aðstöðu til skotiðkunnar. Nú styttist í fyrsta landsmót tímabilsins sem haldið verður í Egilshöll í loftgreinum þann 19. nóv. nk.

1. nóv. 05.  Forsvarsmenn Skotfélags Reykjavíkur og embættismenn borgarinnar funda um framkvæmdirnar á Álfsnesi.
Í síðustu viku áttu forsvarsmenn félagsins fund með stjórnendum framkvæmdasviðs hjá borginni sem séð hafa um framkvæmdir við skotsvæði félagsins á Álfsnesi undanfarin ár.
Tilgangur fundarins var að fá lokastöðu á framkvæmdum eins og þær standa í dag. Von er á niðurstöðu í vikunni og verður í framhaldi lagt fyrir Borgarráð staða málsins og áætlun um framhaldið. Fyrir liggur að klára alla steypuvinnu á næstu vikum og hefja uppslátt og flutning húsakosta á grunna.

8. okt. 05.  Æfinga og keppnistímabilið 2005 - 2006 í kúlugreinum er hafið.
Egilshöllin verðu opnuð til æfinga mánudaginn 10 okt. Nánar um æfingatíma og gjaldskrá.
Sérstakir byrjendatímar verða á fimmtudögum kl: 19:00 - 20:00. Opið verður mánudaga til miðvikudaga frá kl 19:00 til kl: 21:00, fimmtudaga frá 19:00 til 22:00 og á laugardögum frá kl: 08:00 til hádegis. Lokað verður fyrir almennar æfingar á föstudögum en opið fyrir keppendur þegar mót er daginn eftir. Félagsmenn eru hvattir til að mæta og taka þátt í starfinu í vetur. Byrjendur og þeir sem hafa áhuga á að kynna sér skotíþróttina eru ávalt velkomnir. Á staðnum eru reyndir æfingastjórar sem eru tilbúnir til að leiðbeina í skotfimi og veita upplýsingar um skotíþróttina.

1. okt. 05.  Vetrarstarfið í Egilshöll hefst mánudaginn 10 okt. nk.
Æfingatímar og sérstakir byrjendatímar verða auglýstir hér á næstunni.

Leiðbeinendur  félagsins voru með kynningu á skotíþróttinni fyrir nemendur Hamrahliðarskóla á dögunum. Er þetta liður félagsins í að kynna skotíþróttina sem íþróttagrein fyrir unglinga, en markmið skothreyfingarinnar er m.a. að auka unglingastarf í skotfélögum landsins. Það voru unglingar frá Menntaskólanum í Hamrahlíð sem komu í heimsókn til okkar að þessu sinni í Egilshöllina og nutu þar leiðsagnar leiðbeinanda félagsins við fyrstu kynni sín af skotíþróttinni. Fengu þau að kynnast skotfimi með loftbyssum, en sérstök áhersla verður lögð á unglingastarf í loftbyssugreinum hjá félaginu í vetur.
Félagið getur í dag tekið á móti iðkendum sem hafa náð 15 ára aldri en ekki eru mörg ár síðan að aldurstakmarkið var 20 ár. Áfram er unnið að því að fá aldurinn enn neðar og færa það í hendur þjálfara og leiðbeinenda að meta hvenær unglingar eru hæfir til að hefja skotfimi. Þannig er það í öllum nágrannalöndum okkar og þykir afar eðlilegt, enda algjört grundvallaratriði að unglingur hefji æfingar þegar líkamsbygging og hugarfar er talið rétt, til að auka möguleika á að hann / hún nái í röð þeirra bestu á erlendri grundu. Þeir unglingar sem hafa áhuga á að stunda loftbyssugreinar hjá félaginu þurfa að hafa skriflegt leyfi foreldris / forráðamanns.
Nokkrar myndir af nemendum Hamrahliðarskóla í Egilshöll:

15. ágúst 05.  Fréttatilkynning frá stjórn SR :
" Vegna seinagangs við framkvæmdir á nýju svæði félagsins á Álfsnesi, er fyrirhuguðu Reykjavíkurmóti í Skeet, sem halda átti á nýjum völlum þann 27. ágúst nk., frestað um óákveðinn tíma. "

31. júlí 05.  STÍ birti í dag stöðu keppenda í SKEET til bikarmeistara
Fréttin er tekin af heimasíðu STÍ, www.sti.is: Staðan til Bikarmeistara í Skeet liggur nú fyrir. Keppnin í ár er afar tvísýn og geta 6 efstu ennþá gert tilkall til titilsins. Reglurnar eru þær að gefin eru 15 stig fyrir sigur í hverju móti, 14 fyrir annað sætið, 13 fyrir þriðja og svo koll af kolli. 3 bestu mót keppenda gilda svo að viðbættu Bikarmótinu sjálfu sem nú fer fram á Akureyri helgina 13.-14.ágúst n.k. Árangur keppenda á því móti vegur þungt því það mót gildir ef keppendur verða jafnir að stigum að því loknu. Staðan er nánar hér.

30. júli 05.  Framkvæmdir við skotsvæði félagsins síðustu daga.
 Á myndunum má sjá sökkla fyrir riffilskýli og uppslátt fyrir sökklum á félagsheimili. Á næstunni verður farið í framkvæmdir vð haglavelli félagsins.

25. júli 05. Íslandsmót í Skeet fór fram um helgina í Hafnarfirði.
Gunnar Gunnarsson SFS er Íslandsmeistari í Skeet 2005. Hann setti einnig nýtt Íslandsmet þegar hann skaut 118 stig án finale og 138 stig með finale.
Sjá nánar fréttir hér að neðan, sem teknar voru af heimasíðu Skotíþróttafélags Hafnarfjarðar,  ( www.sih.is )  sem hélt mótið. Hafnfirðingar héldu einnig mót 2. og 3. júlií sl. í tilefni 40 ára afmæli félagsins.

Íslandsmótið 2005
SÍH hélt Íslandsmótið í SKEET 2005 dagana 23. og 24. júlí. Það má segja að það sé skammt stórra högga á milli hjá félaginu því það eru aðeins tuttugu dagar síða afmælismót félagsins var haldið. Veðrið skartaði sínu fegursta fyrri daginn en smá dumbungur var seinni daginn án þess að það færi að rigna. Þátttakendur voru nítján frá fimm skotíþróttafélögum. Mótið byrjaði með ótrúlega háu skori þegar Gunnar Gunnarsson skaut 25 í sínum fyrstu tveim hringjum. Sigurþór Jóhannesson fylgdi fast á eftir með tvisvar sinnum 24 dúfur. Í þriðja hring lækkaði Gunnar flugið og skaut 21 dúfu á meðan Sigurþór hélt sig áfram í hæstu hæðum og skaut aftur 24 dúfur. Aðrir keppendur voru töluvert á eftir þeim félögum. Daginn eftir mættu menn ofur spenntir til leiks og má segja að fyrsti hringur hafi gert út um mótið þegar Sigurþór nær aðeins að skjóta 20 dúfur en Gunnar 23. Það var snemma ljóst að Íslandsmetið yrði í hættu og þurfti Gunnar að skjóta 23 dúfur í síðasta hring til að slá Íslandsmetið sem Örn Valdimarsson setti fyrir í sumar og var 116 dúfur. Gunnar gerði betur og skaut 24 og bætti metið um 2 dúfur og endaði í 118 dúfum. Sigurþór skaut 21 dúfu síðasta hring fyrir úrslit og munaði því fimm dúfum á þeim köppum. Gunnar hafði því gott forskot í úrslitum en Sigurþór sýndi hvers hann er megnugur og náði að saxa á forskotið þannig að aðeins skildu þrjá dúfur á milli í lokin. Nýtt Íslandsmet hjá Gunnari, bæði með og án úrslita og sveit SFS þar sem Gunnar er félagsmaður sló Íslandsmetið í liðakeppni með samanlagt 333 dúfum.


SÍH OPEN 2005
SÍH hélt upp á fjörutíu ára afmæli sitt með veglegu afmælismóti. Á mótið sem var öllum opið skráðu sig 28 þátttakendur og þar af fimm Danir og einn Englendingur. Þrátt fyrir að veður væri ekki hið besta skemmtu bæði þátttakendur og starfsmenn sér konunglega. Vegleg veisla var haldin að mótinu loknu í stóru veislutjaldi sem reist var að þessu tilefni. Félaginu bárust veglegar gjafir frá öðrum aðilum úr íþróttahreyfingunni. Meðal þátttakenda voru tveir Danskir unglingar Martin Raunsmed og Morten Clemmensen aðeins 13 og 16 ára gamlir. Þessir náungar sýndu ótrúlega hæfni og hafnaði Martin 13 ára í þriðja sæti mótsins eftir bráðabana um annað sætið við Örn Valdimarsson þáverandi Íslandsmethafa.  En það varð Daninn Henrik Tabur sem vann mótið með 129 dúfur af 150.

15. júli 05.  Steypuvinna á skotsvæði félagsins á Álfsnesi er hafin.
Sökklar riffilskýlis voru steyptir sl. miðvikudag.
 

6. júlí 05.  Skotsvæði félagsins á Álfsnesi í dag.
Unnið er við uppslátt á sökklum fyrir riffilskýli og félagsheimili. 
Hægt er að skoða teikningar af svæðinu í heild hér á síðuni til hægri með því að smella á teikningar nr. 1 - 4. Teikning nr. 4 sýnir fyrirhugað skotskýli félagsins.

24. júní 05.  Framkvæmdir við skotsvæði félagsins á Álfsnesi ganga vel.
Jarðvegsvinna á svæðinu er langt á veg komin og byrjað veður á að slá upp fyrir sökklum félagsheimilisins í næstu viku. Sáð verður í umhverfi haglavalla fyrir mánaðarmót og stutt er í að byrjað verði að reisa Skeetvellina.  Grafið verður fyrir grunni skotskýlisins á riffilrautinni eftir helgi og verið er að ljúka við að keyra mold í riffilbrautina. Lögð verður áhersla á að opna tvo Skeet velli nú í sumar, en ekki er ljóst hvenær riffilvöllurinn verður opnaður.

11. júni 05.  Landsmót STÍ í Skeet var haldið  á Akureyri í dag.
Hákon Þór Svavarsson SFS sigraði á samtals 134 stigum. Hákon skaut meistaraflokks árangur án finale, 114 stig.  Nánar um úrslit dagsins.

4. júní 05.  Framkvæmdir við skotsvæði Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi ganga vel.
Jarðvegsvinna er langt á veg komin við Skeetvellina og má sjá móta fyrir einum þeirra á myndinni hér til hægri. Á næstunni er ráðgert að hefja uppslátt fyrir sökkla félagsheimilisins, sem verður tvö hús með tengibyggingu, rúmlega 150 m2, en þegar er búið að grafa grunninn fyrir húsin.  Þá er verið að klæða riffilbrautina með mold sem sáð verður í, en eftir er að ganga frá mönum umhverfis brautina. Ekki er ljóst hvenær verður hægt að hefja framkvæmdir við riffilskýlið, en það verður u.þ.b. 200 m2 með a.m.k. átján skotbásum.  Engin dagssetning er komin á það hvenær svæðið verður opnað. Fleiri myndir af svæðinu sem teknar voru í gær.

3. júní 05.  ANDORRA FRÉTTIR 3.júní 2005 á heimasíðu STÍ. Keppni í skeet var að ljúka og endaði Örn Valdimarsson í 4.sæti  en hann skaut 23 dúfur í úrslitunum og læddist við það uppfyrir...nánar.

3. júní 05.  STÍ sendi frá sér fréttir frá Andorra í gær, en vefur sambandsins hefur legið niðri um tíma vegna bilana.
"ANDORRA FRÉTTIR
2.júní 2005. Okkar menn í loftskammbyssunni kepptu í dag og komst Ásgeir í úrslitin og hafnaði að lokum í áttunda sæti. Hannes komst aftur á móti ekki í úrslit að þessu sinni. Í haglabyssunni er Örn í þriðja sæti eftir fyrri daginn og Gunnar í því sjötta. Á morgun fer fram seinni hluti keppninnar og"..... Nánari fréttir á heimasíðu STÍ.

2. júní 05.   Smáþjóðaleikarnir á Andorra.
Til að fylgjast með íslensku skotmönnunum er hægt að fara inná  úrslitasíðuna á Andorra  og velja svo til vinstri Calendar & Results.
Nokkrar myndir af keppendum okkar frá Andorra.

29. maí 05.  Skotíþróttasamband Íslands sendir fjóra keppendur til Andorra í júní.
Tveir keppa í Loftskammbysu, þeir Hannes Tómasson SR og Ásgeir Sigurgeirsson SR og tveir keppa í Skeet, þeir Gunnar Gunnarsson SFS og Örn Valdimarsson SÍH. Nánari upplýsingar á heimasíðu STÍ Þar sem verður hægt að fylgjast með árangri keppenda á mótinu.

 

24. maí 05.  Skotíþróttaþing Skotíþróttasambands Íslands var haldið laugardaginn 21. maí sl.
Jón S. Ólason ÍFL var endurkjörin formaður sambandsins. Stjórn sambandsins var einnig endurkjörin, en í henni sitja: Halldór Axelsson SR, Kjartan Friðriksson SR, Guðmundur Kr. Gíslason SR og Steinar Einarsson SFK. Í varastjórn sitja þeir Jóhann Norðfjörð SFS og Páll Reynisson SFS.  Á þinginu voru samþykktar breytingar á 7. grein laga sambandsins um m.a. boðun þings. Samþykkt  var á þinginu að Skíðaskotfimi verði keppnisgrein innan STÍ.  Formaður STÍ vakti athygli þingheims á breyttum móta- og keppnisreglum STÍ.  Áður var viku frestur fyrir félögin til að tilkynna mótshaldara og STÍ þátttöku í mótum sambandsins, en fresturinn hefur verið styttur í þrjá virka daga.
Stóra málið á þinginu var ályktun, sem þingheimur samþykkti einróma, um að fela stjórn STÍ að kanna grundvöll þess að halda Evrópumeistaramót árið 2010 í 10 metra skotgeinum. Stjórn STÍ fékk umboð til að taka ákvörðun um umsókn um að halda mótið ef fjárhagsgrundvöllur og aðstaða verði tryggð.

22. maí 05.  Íslandsmet í SKEET var sett í gær á Landsmóti STÍ í Þorlákshöfn.
Örn Valdimarsson SÍH sigraði á Landsmótinu í SKEET á laugardaginn á samtals 136 stigum og setti þar með Íslandsmet með og án final. Keppnisreglum í SKEET var breitt um áramótin og er árangur Arnar því nýtt Íslandsmet samkvæmt nýjum reglum í greininni. Örn skaut 116 stig án final sem er tveimur stigum yfir meistaraflokksárangri. Gunnar Gunnarson SFS varð í öðru sæti á 135 stigum og Ævar Leo Sveinsson SR hafnaði í þriðja sæti á 134 stigum. Nánar um úrslit mótsins.

22. maí 05.   Framkvæmdir við Skotsvæði félagsins á Álfsnesi ganga vel þessa dagana.
Myndin hér til hægri er tekin laugardaginn 21. maí við framkvæmdir á  haglavöllum félagsins. Einnig er unnið við að klæða riffilbrautina með mold sem verður síðar sáð í með grasfræi. Vinna við rafmagn er langt á veg komin og einnig vinna við vatnslögn og rotþró. Áætlað er að setja hlið inn á svæðið í næstu viku og verður þá lokað fyrir óviðkomandi umferð inn á svæðið.

16. maí 05.  Landsmót STÍ í SKEET  verður haldið í Þorlákshöfn um næstu helgi.
Alls 14 keppendur eru skráðir í mótið, sem verður haldið laugardaginn 21. maí á velli Skotíþróttafélags Suðurlands í Þorlákshöfn.

14. maí 05.  Skotsvæðið á Álfsnesi opnað í maí ?
Áætlað hafði verið að opna einhvern hluta skotsvæðisins í maí, en allar líkur eru á að það takist ekki. Framkvæmdir er nú í fullum gangi á svæðinu og er unnið jöfnum höndum við að koma hagla- og riffilvelli í gagnið sem fyrst. Á næstu dögum verður svæðinu lokað fyrir óviðkomandi umferð, en nokkur brögð eru á að vélhjólamenn keyri inn á svæðið og róti upp jarðvegi. Einnig eru nokkur dæmi um að einstaka menn hafi verið að skjóta á svæðinu og jafnvel á sama tíma og vélavinna hefur verið í gangi. Öll meðferð skotvopna á svæðinu er stranglega bönnuð og verður notkunn þeirra á svæðinu kærð til lögreglu umsvifalaust.

12. maí 05.  Staða keppenda á Loftbyssumótum STÍ eftir tímabilið 2004 - 2005. Keppendur geta skoðað hér heildarskor og meðalskor tímabilsins.

11. maí 05.  Minningarmótið um Hans P. Christensen var haldið í Egilshöll í gær.  Keppt var í Loftskammbyssu og Loftriffli. Guðmundur Kr. Gíslason SR sigraði á 561 stigi í Loftskammbyssu og Jónas Bjargmundsson SFK  í Loftriffli á 553 stigum. Keppt var í einum flokki í hvorri grein, þ.e. konur, karlar og unglingar keppa saman í 60 skota keppni í báðum greinum. Mótið er haldið árlega í minningu Hans P. Christensen fyrverandi stjórnarmanns  SR. Nánar um úrslit mótsin og myndir frá mótinu.

8. maí 05.  Landsmót STÍ í SKEET fór fram í Keflavík í gær.
Gunnar Gunnarsson SFS sigraði á samtals 134 stigum. Gunnar skaut á finals 114 stig sem er meistaraflokksárangur. Í öðru sæti var Örn Valdimarsson SÍH á 133 stigum og í þriðja sæti hafnaði Ævar L. Sveinsson SR á 131 stigi. Nánar um úrslit mótsins.

7. maí 05.  Bikarmeistaramót STÍ í 60 skotum Liggjandi riffli ( Ensk Þraut ) fór fram í Digranesi 5. maí sl.
Arnfinnur Jónsson SFK er Bikarmeistari 2005. Hann sigraði á mótinu með 576 stigum, Guðmundur Helgi Christensen SR varð í öðru sæti á sama skori og í þriðja sæti var Carl J. Eiríksson SÍB á 574 stigum. Arnfinnur var efstur fyrir lokamótið í bikarkeppninni á 118 stigum, en hann sigraði á sex mótum af átta landsmótum STÍ í vetur. Hann endaði á samtals 133 stigum til bikarmeistara, en Carl varð í öðru sæti með 121 stig og Eyjólfur Óskarsson SR hafnaði í þriðja sæti á 105 stigum. Nánar um úrslit mótsins.

3. maí 05.  Bikarmeistaramótið í Loftbyssugreinum fór fram í Egilshöll í kvöld. 
Hannes Tómasson SR er Bikarmeistari í Loftskammbyssu karla, Guðmundur Helgi Christensen SR er Bikarmeistari í Loftriffli karla, Jórunn Harðardóttir SR er Bikarmeistari í Loftskammbyssu kvenna og Ásgeir Sigurgeirsson SR er Bikarmeistari í Loftskammbyssu unglinga. Nánar um úrslit kvöldsins og nokkrar myndir frá mótsstað.

3. maí 05.  Christensenmótið  ( Loftskammbyssa/Loftriffill ) sem halda átti 7. maí nk. í Egilshöll hefur verið frestað til þriðjudagsins 10. maí nk.

2. maí 05.  Bikarmeistaramót STÍ í Loftbyssugreinum verður haldið í Egilshöll á morgun. Staða keppenda fyrir bikarmeistaratitil.

30. apríl 05.  Landsmót STÍ  í Skeet  fór fram í Þorlákshöfn í dag. Sigurþór Jóhannesson SÍH sigraði á samtals 135 stigum. Sigurþór skaut samtals án finale 114 stig sem er meistaraflokksárangur.  Í öðru sæti var Friðþór S. Sigurmundsson SFS á 130 stigum og í þriðja sæti hafnaði Hákon Þ. Svavarsson SFS á 107 stigum. Nánar um úrslit dagsins og nokkrar mydnir frá mótinu.

30. apríl 05.  Arnfinnur Jónsson SFK varð Íslandsmeistari í dag í Enskri Þraut (60 skota liggjandi riffilgrein) á 581 stigi. Mótið fór fram í Digranesi. Úrslit mótsins.

24. apríl 05.  Fyrsta Landsmót sumarsins í SKEET fór fram í Hafnarfirði í gær.
Sigurþór Jóhannesson SÍH sigraði á mótinu á samtals 130 stigum af 150 mögulegum. Í öðru sæti varð Örn Valdimarsson SÍH einnig á 130 stigum en hann beið lægri hlut í bráðabana við Sigurþór. Hilmar Árnason SR hafnaði í þriðja sæti á 121 stigi. Nánar um úrslit mótsins.

23. apríl 05. Ný Íslandsmet voru sett í dag í Egilshöll á Landsmóti STÍ í Loftskammbyssugreinum. Ásgeir Sigurgeirsson og Jórunn Harðardóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur, settu bæði Íslandsmet hvort í sínum flokki.
Ásgeir Sigurgeirsson úr Skotfélagi Reykjavíkur er Íslandsmeistari í Loftskammbyssu í unglingaflokki 2005. Hann var með langbesta skorið á Íslandsmótinu í Loftskammbyssu, sem fram fór í Egilshöll í dag. Hann skaut nærri 10 stigum meira en Íslandsmeistarinn í karlaflokki í sömu grein í samanlögðum árangri, þ.e. með úrslitum (finale).
Ásgeir, sem keppir í unglingaflokki, toppaði á réttum tíma þegar hann setti nýtt Íslandsmet í sínum flokki. Hann skaut samtals án finale 561 stig, sem er nýtt og glæsilegt Íslandsmet unglinga og er þessi árangur aðeins tveimur stigum frá Ólympíulágmarkinu og meistaraflokksárangri í karlaflokki. Ásgeir setti einnig Íslandsmet í flokki unglinga með finale, 654,3 stig.
Jórunn Harðardóttir úr Skotfélagi Reykjavíkur varð Íslandsmeistari í Loftskammbyssu kvenna 2005 og setti nýtt Íslandsmet um leið. Hún skaut samtals 363 stig og samanlagt með finale 455,0 stig.
Hannes Tómasson SR varð Íslandsmeistari í Loftskammbyssu í karlaflokki  2005 á 644,6 stigum, Gunnar Þór Hallbergsson SR var í öðru sæti á 636,9 stigum og Guðmundur Kr. Gíslason SR hafnaði í þriðja sæti á 635,3 stigum. Í loftriffli karla varð Guðmundur Helgi Christensen SR Íslandsmeistari 2005 á 543 stigum, Jónas Bjargmundsson SFK varð í öðru sæti á 533 stigum og í þriðja sæti hafnaði Sigfús Tryggvi Blumenstin SR á 516 stigum. A - sveit Skotfélags Reykjavíkur í Loftskammbyssu karla varð Íslandsmeistari í liðakeppni 2005 á 1643 stigum.  Nánar um úrslit dagsins.

20. apríl 05.  Undirbúningur framkvæmda á Álfsnesi í fullum gangi. 
Samningar standa yfir við verktaka sem áætlað er að taki að sér allt verkið á svæðinu. Lögð er áhersla á að ljúka framkvæmdum á þremur haglavöllum og riffilvelli sem verða allir teknir í notkunn samtímis ásamt félagsheimilum félagsins og riffilskýli . Áætlað er að verktakinn ljúki framkvæmdum í einni lotu, en ekki eru komin tímamörk á lok framkvæmdanna. Verið er að aka efni í vellina þessa dagana og einnig er verið að undibúa vantslögn inn á svæðið. Verktaki sér um að útvega alla fagaðila sem koma að verkinu.  Miklar jarvegsframkvæmdir eru framundan á svæðinu, uppbygging mana til skjóls umhverfis haglavelli og til öryggis við riffilvöll, ásamt byggingaframkvæmdum við húsakost félagsins og skotvelli. Allar framkvæmdir á svæðinu eru úttektarskyldar samkvæmt byggingarlöggjöf og þarf félagið að uppfylla þau skylirði.

19. apríl 05.  Bikarmeistaramóti í Staðlaðri Skammbyssu hefur verið aflýst.
Í ljósi þess að Íslandsmóti í Staðlaðri skammbyssu var aflýst, þá hefur Bikarmótið í sömu grein , sem halda átti 26.apríl 2005, engan tilgang lengur og hefur því stjórn STÍ ákveðið að aflýsa því einnig.

18. apríl 05.  Guðmundur Helgi Christensen Skotfélagi Reykjavíkur varð íslandsmeistari í Þríþraut  í gær.  
Mótið fór fram í Digranesi í aðstöðu Skotfélags Kópavogs.  Helgi skaut samtals 1064 stig af 1200 mögulegum. Þríþrautin er skotin í þremur skotstöðum, liggjandi, standandi og krjúpandi með stuðning við hné. Skotið er 40 skotum úr hverri stöðu og ræður samanlagður árangur úr öllum þremur stöðunum stigafjölda. Arnfinnur Jónsson SFK  á 1053 stigum varð í öðru sæti og Hafsteinn Pálsson SFK hafnaði í þriðja sæti á 991 stigi. Nánar um úrslit mótsins. Myndin til hægri er af Guðmundi Helga í standandi stöðu.

17. apríl 05.  Tilkynning frá Skotíþróttafélagi Hafnarfjarðar vegna fyrsta landsmóts í SKEET tímabilið 2005.  
Æfingasvæði félagsins á Iðavöllum verður opið föstudaginn 22. apríl frá kl. 16.00 til æfinga fyrir keppendur sem skráðir eru á Landsmótið í SKEET 23. apríl nk.

17. apríl 05.  Keppendur félagsins geta nú skráð sig til keppni hér á síðunni til vinstri á Mótaskráning.

16. apríl 05. Stjórn STÍ hefur sent frá sér flokkastöðu skotmanna í SKEET fyrir upphaf tímabilsins í ár.

16. apríl. 05.  Ásgeir Sigurgeirsson bætti Íslandsmet sitt í flokki unglinga í Loftskammbyssu þegar hann sigraði á Reykjavíkurmótinu í Egilshöll á 550 stigum af 600 mögulegum.  Ásgeir og Hannes Tómasson, sem er magrfaldur Íslandsmeistari í skammbyssugreinum, skildu jafnir að stigum á Reykjavíkurmótinu í loftskammbyssu sem fram fór í Egilshöll 12 apríl sl. Ásgeir sigraði á mótinu þar sem hann skaut síðustu tíu skota hrinuna á 94 stigum af 100 mögulegum, en Hannes skaut 90 stig. Guðmundur Kr. Gíslason, fyrverandi Íslandsmeistari, hafnaði í þriðja sæti á 546 stigum. Ásgeir, sem er fæddur 1985, hefur sannað að skotíþróttin er fyrir alla aldurshópa og hann á eftir að veita reyndari keppnismönnum harða keppni á næstunni með sama áframhaldi. Á heimasíðu Ólympíuleikana 2004 var greint frá því að á sömu leikum 1992 hafði 17 ára unglingur að nafni Kostantin Lukas sigrað margfaldan heimsmeistara í skammbyssugreinum, Ragnar Skanaker, sem þá var 58 ára gamall. Í sömu grein er einnig fjallað um að skotíþróttin sé ein af erfiðustu íþróttagreinum sem keppt er í, m.a. vegna þess að hún krefst þess að fólk sem keppir í skotíþróttum þarf að vera í góðu líkamlegu ástandi, andlegu jafnvægi og þetta sé grein sem krefst tæknilegrar fullkomnunar ef keppendur ætla sér að ná árangri. Ásgeir hefur í vetur sýnt og sannað að unglingar eiga fullt erindi í skotíþróttir. Nánar um úrslit mótsins.

 

15. apríl. 05. Skotíþróttasambands Íslands sendi frá sér frétt um  frestun Skotþings til 21. maí nk.

                                           

5. apríl 05.  Hannes Tómasson SR varð Íslandsmeistari í Frjálsri Skammbyssu í kvöld.
Í Egilshöllinni í Grafarvogi var haldið í kvöld Íslandsmót í einni erfiðustu skotgreininni, Frjálsri Skammbyssu (Free Pistol). Í þeirri grein er skotið fríhendis af 22ja kalibera einskota mark-skammbyssu á 50 metra færi.  Hannes sigraði á 516 stigum af 600 mögulegum,  Jónas Hafsteinsson ÍFL varð í öðru sæti á 501 stigi og Carl J. Eiríksson SÍB í þriðja sæti á 486 stigum.  Úrslit kvöldsins.

31. mars 05.  Aðalfundur félagsins var haldin í kvöld.
Stjórn félagsins var kjörin, Hilmar Á. Ragnarsson formaður til tvegja ára, Vignir J. Jónasson til tveggja ára, Gunnar Þórarinsson til tveggja ára, og Finnur L. Jóhannson varamaður til tveggja ára. Áfram sitja í stjórn til eins árs þeir Guðmundru Kr. Gíslason,  Kjartan Friðriksson og Halldór Þ. Haraldsson varamaður.
Nokkrar lagabreytingar voru samþykktar á fundinum, m.a. að formaður félagsins er nú kjörinn til tveggja ára í senn.  Einnig var samþykkt á fundinum lagabreyting um að hjón og eða sambýlisfólk sem bæði eru í félaginu greiði hálft ársgjald hvort. Þá var samþykkt að árgjald fyrir unglinga verði aðeins brot að árgjaldi fullorðina sem eins og árgjald fullorðina verði ákveðið á aðalfundi ár hvert. Nýju lögin með áornum breytingum sem samþykktar  voru á fundinum í kvöld er að finna hér. Fundargerð aðalfundar verður birt hér á síðunni um helgina. Formaður félagsins flutti skýrslu stjórnar að venju og er hún hér í heild. Formaðurinn taldi ástæðu til bjartsýni fyrir skotmenn um framtíðina varðandi æafingaraðstöðu í öllum greinum skotfimi fyrir keppnismenn og hinn almenna áhugamann um skotfimi sem tómstundargaman.  Fundurinn var fremur stuttur að þessu sinni og þakkaði fundarstjórinn, Axel Sölvason prúðmannlega fundarsetu félagsmanna.

31. mars 05.  Aðalfundur Skotfélags Reykjavíkur verður haldinn í kvöld.
Stjórn félagsins minnir á aðalfund félagsins í kvöld, sem haldin verður í húsi ÍBR á þriðju hæð í Laugardal. Fundurinn hefst kl. 20:00.

23. mars 05.  Byggingaframkvæmdir Skotfélags Reykjavíkur á Álfsnesi samþykktar af byggingarfulltrúanum í Reykjavík.
Samþykktar voru rúmlega 222m2 byggingar á svæðinu, átta skotturnar á haglasvæðinu og riffilskýli á riffilvelli. Áður var búið að ganga frá leyfum fyrir félagsaðstöðunni, u.þ.b. 150m2 húsnæði.

22. mars 05.  Aðalfundur Skotfélags Reykjavíkur verður haldinn fimmtudaginn 31. mars kl 20:00 í húsi ÍBR á 3. hæð í Laugardal.
Venjuleg Aðalfudarstörf.
Stjórnin.

11. mars 05.  Skotsvæði SR á Álfsnesi opnað í maí !
Framkvæmdir hefjast á svæðinu þriðjudaginn nk.  og er stefnt á að opna skotsvæðið í maí. Reistir verða fjórir keppnisvellir í haglabyssugreinum og 300 metra riffilbraut með skotskýli auk 150m2 félagsaðstöðu . Verið er að ganga frá teikningum af svæðinu og er þess vænst að öll tilskilin leyfi verði tilbúin í næstu viku.

1. mars 05.
Flokkameistaramót STÍ í Loftbyssugreinum var haldið í kvöld í Egilshöll.
Hannes Tómasson SR sigraði á glæsilegu skori, samtals 567 stigum, sem er 4 stigum yfir meistaraflokksárangri. Guðmundur Kr. Gíslason SR var í öðru sæti á 547 stigum og í þriðja sæti hafnaði Gunnar Þór Hallbergsson SR á 534 stigum. Tveir unglingar kepptu að þessu sinni í loftskammbyssu, þeir Ásgeir Sigurgeirsson SR á  531 stigi og Pétur Jónsson SR á 479 stigum. Aðeins ein kona keppti í kvöld, Jórunn Harðardóttir SR, en hún skaut 341 stig af 400 mögulegum. Gðmundur Helgi Christensen SR hreppti fyrsta sætið í loftriffli á 547 stigum á 600 mögulegum. Nánari úrslit og myndir frá mótinu í kvöld.

20. feb. 05.
Arnfinnur Jónsson SFK sigraði á landsmót í Enskri þraut sem fór fram í dag í Egilshöll.
Keppt var í ( English Match )  Enskum riffli eða 60 skotum liggjandi eins og þessi keppni er oftast kölluð. Þetta er fyrsta mótið sem haldið er í Egilshöll með nýjum búnaði í 60 skotum liggjandi á 50 metrum, en þessi búnaður hefur ekki verið notaður áður á Íslandi. Alls tóku átta keppendur þátt í mótinu í dag, en töluverður uppgangur er í þessari grein á Íslandi í dag.  Búnaðurinn í Egilshöll er frábrugðin þeim búnaði sem skotmenn þekkja frá fyrri mótum að því leiti að skotmaðurinn sér sjálfur um að skipta um skífur milli skota. Þetta kerfi gerir það að verkum að skotmaðurinn er óháður öðrum keppendum á mótum og á æfingum þegar skipt er um skífur. Nánari upplýsingar um úrslit mótsins og myndir frá mótsstað.

19. feb. 05.
Landsmót STÍ í loftbyssugreinum var haldið í dag í Digranesi.
Ásgeir Sigurgeirsson jafnaði sitt eigið Íslandsmet í unglingaflokki í Loftskammbyssu, en hann skaut samtals 549 stig í dag. Ásgeir hefur sýnt stöðuleika í mótum undanfarið og greinilegt að þarna er um framtíðar skotmann að ræða, sem með sama áframhaldi á hann eftir að láta að sér kveða á næstunni. Ásgeir keppir í unglingaflokki til 21 árs aldurs, þ.e. út það almanaksár sem hann verður tuttugu og eins árs, nema hann sjálfur óski eftir því að verða fluttur í fyrsta flokk karla. Ásgeir er þegar farin að ýta við efstu mönnum í karlaflokki og það verður athyglisvert að fylgjast með árangri hans í næstu mótum. Á mótinu í dag munaði einungis tveimur stigum á að Ásgeir blandaði sér í efstu sætin í karlaflokki.
Guðmundur Kr. Gíslason SR sigraði í karlaflokki í loftskammbyssu með 551 stig. Í öðru sæti hafnaði Jónas Hafsteinsson SFK á sama skori, 551 stigi, en síðasta 10 skota hrinan hjá þeim félögum réði úrslitum um það hvor hreppti fyrsta sætið. Guðmundur skaut samtals 90 stig á síðustu tíu skota hrinunni, en Jónas skaut 89 stig. Hannes Tómasson SR hafnaði í þriðja sæti með 550 stig. Nánar úrslit dagsins og nokkrar myndir frá mótsstað.

 

14. feb. 05.
Lögmenn keppa í skotfimi.
Nokkrir lögmenn á vegum Lögmannafélags Íslands mættu í Egilshöll á stutta kynningu um skotíþróttir. Haldið var skotmót á staðnum þar sem lögmenn kepptu í skotfimi með loftrifflum og eru úrslitin hér.

12. feb. 05
L
andsliðseinvaldar STÍ sjá um að velja í landslið.
Stjórn STÍ hefur falið Halldóri Axelssyni og Jóni S. Ólasyni að sjá um að undirbúa og velja keppendur á Smáþjóðaleikana á Andorra í sumar. Halldór mun sjá um að velja í lið í haglagreinum og Jón mun sjá um loftbyssugreinarnar.

9. feb. 05. 
Skotsvæðið á Álfsnesi.
Unnið er við rafmagnsteikningar svæðisins þessa dagana og vætnanlega verður komið vinnurafmagn inn á svæðið á næstunni.

8. feb. 05.
Landsmót STÍ í frjálsri skammbyssu ( Free Pistol ) á 50 metrum í Egilshöll. 
Hannes Tómasson SR sigraði  á mótinu, Jónas Hafsteinsson ÍFL varð í öðru sæti og Björn Emil Sigurðsson SFK hafnaði í þriðja sæti. Nánari úrslit mótsins.

27. jan. 05.
Nýjar reglum tóku gildi í Skeet 1. janúar 2005.
Nokkrar breytingar hafa verið gerðar á reglum i Skeet frá því sem áður var. Helstu breytingarnar eru skotaröð á pöllum í forkeppni og úrslitum ( finale ) , nýtt hæðarmerki og staðsetning þess svo og skotaröð í úrslitum. Hæðarmerkið fæst hjá STÍ og skotfélögunum og kosta 500 kr. Helstu breytingarnar hafa verið
þýddar, en breytingarnar í heild er að finna á heimasíðu ISSF

26. jan 05. 
Skotsvæðið á Álfsnesi
 
Unnið er að undirbúningi næstu framkvæmda á skotsvæðinu á Álfsnesi. Nú er verið að vinna í því að fá rafmagn tengt til bráðabirgða til þess að vinna geti hafist á svæðinu. Enn og aftur hafa nokkrar tafir orðið á framkvæmdum frá því sem áætlað hafði verið, en vonast er til að vinna geti hafist í byrjun febrúar við grunna húsana og haglavellina. Lagt verður ofurkapp á að koma a.m.k. tveimur Skeet-völlum í gang á vordögum. Stefnt er að því að ljúka framkvæmdum fyrir næsta haust á svæðinu og vinnur stjórn félagsins að því að finna leiðir til svo geti orðið. Eins og áður hefur komið fram hafa framkvæmdir við skotsvæðið verið settar inn á þriggja ára fjárhagsáætlun borgarinnar, sem væntanlega gerir félaginu kleift að klára svæðið fyrr en reiknað hafði verið með. Næstu daga og vikur verður gengið frá teikningum af svæðinu í heild, en eftir er að ganga frá teikningum af riffilskýli, rafmagnsteikningum og ýmsum öðrum tækniatriðum.

26. jan. 05. 
Mótaskrá STÍ í SKEET fyrir tímabilið 2005 er komin út.
Stjórn STÍ hefur samþykkt mótaskrá í haglagreinum fyrir tímabilið í ár. Eina haglagreinin sem keppt verður í þetta tímabilið er SKEET.   
Sjá nánar mótaskrá STÍ.

25. jan. 05.
Nýr lyfja-bannlisti tók gildi 1. janúar sl.
Skotíþróttafólk er hvatt til að kynna sér listan. Athygli er vakin á því að nýr listi alþjóða Lyfjaeftirlitsstofnunarinnar  ( WADA ) yfir efni og aðferðir sem bannað er að nota í íþróttum tók gildi 1. janúar 2005. Listann er að finna, ásamt leiðbeiningum um hvernig sækja má um undanþágur á
Lyfjavef ÍSÍ.  Sérstök athygli er vakin á nýjum aðferðum við að sækja um undanþágur. Keppnisfólki er bent á að það er á ábyrgð keppenda sjálfra að kunna þær reglur sem gilda í viðkomandi íþrótt hverju sinni. 

23. jan. 05 
Flokkameistaramót STÍ í Staðlaðri Skammbyssu fór fram í dag í Digranesi.
Carl J. Eiríksson sigraði í 1. flokki, Hannes Haraldsson í 2. flokki og Anton Konráðsson í 3. flokki. Nánar úrslit dagsins.

22. jan. 05. 
Landsmót STÍ í Loftbyssu fór fram í Egilshöll í dag.
Hannes Tómasson SR sigraði í karlaflokki með 551 stigi í öðru sæti var Guðmundur Kr. Gíslason SR og í þriðja sæti hafnaðri Finnur Steingrímsson SKÓ. Tveir unglingar kepptu á mótin í loftskammbyssu, þeir Ásgeir Sigurgeirsson SR og Pétur Jónsson SR. Ásgeir skoraði 536 stig og Pétur 482 stig. Á myndinni til vinstri eru þeir Ásgeir og Pétur. Guðmundur Helgi Christensen SR sigraði í Loftriffli karla með 532 stig, í öðrusæti varð Finnur Steingrímsson SKÓ og í þríðja sæti var sigfús Tryggvi Blumenstein SR. Aðeins ein kona keppti að þessu sinni, Jórunn Harðardóttir SR. Hún keppti í Loftskammbyssu og skoraði 354 stig af 400 mögulegum. Nánar úrslit og myndir frá mótinu.

15. jan. 05. 
Í dag fór fram Landsmót í 60 skotum liggjandi riffli á 50 metra færi.
Þessi grein er einnig oft kölluð enskur riffill / keppni. ( English Match )  Arnfinnur Jónsson sigraði þar, þrátt fyrir flensu, og skoraði hann hvorki meira né minna en 587 stig, en það jafngildir alþjóðlega Ólympíulágmarkinu og er jafnframt meistaraflokksárangur hér á landi. Í öðru sæti varð Eyjólfur Óskarsson með 575 stig. Mótið var haldið í húsnæði Skotfélags Kópavogs í Digranesi. Úrslit dagsins...

15. jan. 05. 
Frétt frá skrifstofu STÍ 13. jan sl. Lokaskráningu þátttakendafjölda á Smjáþjóðaleikana í Andorra er nú lokið.
Til leiks frá öllum aðildarþjóðunum í skotfimi eru skráðir 78 keppendur. Þeir skiptast þannig eftir greinum: Trap haglabyssa 15 keppendur, Double Trap haglabyssa 13 keppendur, Skeet haglabyssa 11 keppendur, Loftriffill 21 keppandi og Loftskammbyssa 23 keppendur.

10. jan. 05. 
Æfingar í Egilshöll hefjast aftur í dag eftir jólafrí. 

Æfingar eru alla virka daga frá 19:00 til 21:00. Byrjendum er bent á að mæta kl.: 19:00 til 20:00 og hafa samband við æfingastjóra á staðnum.

AddThis Social Bookmark Button