Frá Riffilnefnd SR um Áramótið og starfið á næsta ári Skoða sem PDF skjal
Þriðjudagur, 16. febrúar 2010 15:42
Hér á árum áður var blómleg starfsemi á útisvæði Skotfélags Reykjavíkur upp í Leirdal. Félagsmenn höfðu af vinnusemi og fórnfýsi byggt þar upp góða aðstöðu bæði til haglabyssu og riffilskotfimi. Fjölmörg mót voru haldin árlega í báðum greinum. Síðustu árin sem félagið hafði yfirráð yfir svæðinu í Leirdal voru haldin innanfélags mót í benchrest skotfimi mánaðarlega allan veturinn. Bæði var keppt í grúppu skotfimi og score. Síðan voru Íslandsmót á sumrin... ...Svo kom blessað góðærið og yfirvöld sáu að það var óábyrg meðferð á fjármunum að láta þá liggja í skotsvæði þannig að Skotfélagið var rekið brott eignir þess í formi framkvæmda og mannvirkja á svæðinu gerðar upptækar og brotnar niður og landið selt verktökum sem byggingarlóðir. 

           

Á þeim tíma sem SR var án útisvæðis var ekki um auðugan garð að gresja hjá riffilmönnum. Voru þeir að reyna að finna griðastaði vítt og breitt um landið þar sem þeir gátu still inn riffla sína fyrir veiðar. Helst var hægt að skjóta á skotsvæðinu í Keflavík og Þorlákshöfn en þau svæði gátu þó engan veginn annað eftirspurn. Skemmst er frá því að segja að á því tímabili lagðist af allt mótshald í riffilskotfimi utanhúss. Loksins á síðasta ári eftir langa mæðu og langt ferli samninga við borgina um annað svæði og bætur fyrir þessa eignaupptöku hefur SR tekist að byggja upp að nýju aðstöðu á Álfsnesinu sem verður að teljast með því besta sem gerist. Eiga þeir stjórnarmenn sem stóðu í þessum samningum og framkvæmdum hrós skilið fyrir þrautseigju og dugnað.

           

Í framhaldi af því að aðstaðan var loksins orðin fyrir hendi var riðið á vaðið og fyrsta rifflamótið á nýju svæði haldið síðasta sumar. Átti Hjálmar í Hlað heiðurinn af því. Mjög vel tókst til og sýnilegt að skotmenn hér um slóðir höfðu mikinn áhuga á því að koma saman og nota riffla sína enda eru fjölmargir skotmenn búnir að koma sér upp mjög góðum og dýrum tækjabúnaði. Í vetur vaknaði sú hugmynd að halda skotmót sem kalla mætti “Áramótið” en á gamla skotsvæðinu höfðu haglabyssu menn haldið slíkt mót árlega. Lítið var vitað um það hver þátttakan myndi verða en lagt var upp með að sem flestir gætu tekið þátt og á sem mestum jafnréttis grunni. Það var því ákveðið að skotið yrði á 300 metra færi og engar takmarkanir á leyfilegum búnaði.

           

Þátttaka á mótinu fór fram úr öllum væntingum. Átján keppendur tóku þátt og var skotið af hverju einasta borði skotskýlisins, nokkuð sem enginn hefði búist við fyrir fram. Mörgum hafði fundist það óþarfa bjartsýni að hafa skotskýlið svona stórt en annað hefur komið á daginn. Fyrir utan þá sem kepptu voru nokkrir mættir til að fylgjast með og aðrir hefðu keppt ef pláss hefði verið fyrir þá. Í því sambandi ber að geta þess að pláss takmarkar ekki fjölda keppenda í riffilskotfimi hér þar sem auðvelt er að keppa í tveimur eða fleiri riðlum ef þurfa þykir. Til þess að það sé hægt þarf að vera búið að skrá þátttöku fyrirfram og skipuleggja mótið út frá því. Fór mótið í alla staði vel fram og skemmtu keppendur sér hið besta. Þrátt fyrir að öðru hafi verið hótað voru vegleg verðlaun veitt í lok mótsins. Verðlaunapeningar fyrir fyrstu þrjú sætin og farandbikar fyrir sigur. Auk þess veitti Hjálmar í Hlað einnig verðlaun fyrir þrjú fyrstu sætin en þau voru guðaveigar til að skála fyrir komandi skotári. Eru honum færðar þakkir fyrir.

           

Úrslit mótsins urðu þau að Magnús Sigurðsson varð í fyrsta sæti, Valdimar Long í öðru sæti og Sigurður Einar í þriðja sæti. Úrslitin má sjá hér ásamt tækjabúnaði keppenda.

           

Á sama tíma og riffilmótið fór fram var haldið haglabyssu “Áramót” og kepptu þar um 20-30 manns. Má ætla að milli 50-100 manns hafi komið á Álfsnesið þennan dag til þess að keppa eða fylgjast með. Tel ég vafasamt að áður hafi fleiri komið saman hér á landi vegna skotviðburðar en ef svo er þá vonast ég til að það leiðréttist. Stjórn SR hafði komið með brauð og álegg ásamt gosi þannig að allir gátu nært sig meðan verið var að reikna saman stigin. Var það vel til fallið og féll í góðan jarðveg.           

Að lokum vil ég fyrir hönd rifflanefndar þakka öllum þátttakendum fyrir skemmtilega og drengilega keppni svo og þeim sem lögðu hönd á plóginn við að hrinda þessu í framkvæmd. Reynslan af þessu gefur góð fyrirheit um starfið á komandi ári og mun rifflanefnd fljótlega setja saman drög að starfi sumarsins en starfsemin stendur og fellur með áhuga og þátttöku félagsmanna.  

Fyrir hönd rifflanefndar, Bergur Arthursson.

AddThis Social Bookmark Button