Stjórn félagsins þakkar samstarfið á liðnu ári og óskar félagsmönnum og velunnurum félagsins farsældar á nýju ári. Um áramót er oft horft um öxl og farið yfir starfið á liðnu ári.
Í félagsstarfinu hefur orðið mikil breyting á starfsemini, m.a. hefur verið mikil fjölgun þeirra sem stunda skotíþróttina á völlum félagsins og uppgangur mikill í starfinu almennt. Árangur skotíþróttamanna fer vaxandi í hinum ýmsu skotgreinum og ber þar hæst árangur Ásgeirs Sigurgeirssonar í Loftskammbyssu. Hér á síðu félagsins eru allar upplýsingar um starfið og árangur skotmanna síðastliðið ár. Það er engin spurning að félagsmenn, sem komið hafa að starfssemi félagsins, staðið fyrir mótahaldi ýmis konar og æfingum, hafa unnið mikið og glæsilegt verk við að halda skotíþróttinni á kortinu. Fjöldi félagsmanna hefur séð um að taka á móti nýliðum, sinnt þjálfun, kennslu, kynningum og komið skotgreinum í gang sem legið hafa í dvala í nokkur ár. Starfsemi félagsins og félagslífið stendur og fellur með þessu starfi. Um áramót er ekki síður mikilvægt að horfa fram á veginn því það eru mörg verk sem bíða okkar á næstu mánuðum bæði í inni- og útistarfinu. Það hefur verið stefna stjórnar að fá sem flesta til starfa við hinar ýmsu skotgreinar, því við erum jú rétt að byrja uppbyggingu starfsins. Lögð verður áhersla á að halda reglulegar æfingar í sem flesum skotgreinum og semja innanfélags-mótaskrá í þeim flestum. Það er mikilvægt að þeir sem vilja koma að starfinu á útisvæði félagsins hafi samband við stjórn sem fyrst því það er stutt í vorið. Stefna stjórnar er að koma á samskonar æfingastjórn á útisvæðinu og verið hefur í Egilshöllinni um árabil. Þar hefur starfið verið til fyrirmyndar i alla staði og ber að þakka sérstaklega þeim sem að því koma. Stjórn félagsins þakkar enn og aftur samstarfið á liðnum árum – Gleðilegt nýtt ár !
|